Innlent

Alls 320 grunn­skóla­nemar í sótt­kví á höfuð­borgar­svæðinu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla-og frístundasviðs segir að þegar kórónuveiran sé útbreidd í samfélaginu sé ekki óeðlilegt að smit komi upp í stórum hópi nemenda og starfsfólks skóla- og frístundasviðs.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla-og frístundasviðs segir að þegar kórónuveiran sé útbreidd í samfélaginu sé ekki óeðlilegt að smit komi upp í stórum hópi nemenda og starfsfólks skóla- og frístundasviðs. Vísir/vilhelm

Skóla- og frístundasvið hefur ekki farið varhluta af kórónuveirufaraldrinum sem geisar en í skriflegu svari frá Helga Grímssyni, formanni skóla- og frístundasviðs kemur fram að 320 nemendur og 43 starfsmenn í alls fimm grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið í sóttkví í gær vegna kórónuveirusmits sem kom upp í skólunum.

Allir nemendur sem hafa þurft að sæta sóttkví stunda nám sitt í fjarnámi.

Áhrif kórónuveirunnar á leikskóla borgarinnar eru öllu minni en alls voru 33 leikskólabörn og ellefu starfsmenn í sóttkví í alls tveimur leikskólum. Tvær deildir hafa þurft að loka.

Auk þessa hefur skerðing orðið á starfsemi einnar skólahljómsveitar, í einu frístundaheimili og einni félagsmiðstöð vegna sóttkvíar starfsmanna og barna.

Helgi bendir á að skóla- og frístundasvið sé 30.000 manna vinnustaður barna og fullorðinna og þegar veiran er útbreidd í samfélaginu sé eðlilegt að smit greinist í svo stórum hópi.

„Við leggjum hins vegar mikla áherslu á að smit berist ekki á milli einstaklinga í skóla-og frístundastarfinu. Það hefur tekist mjög vel í nánast öllum tilvikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×