Handbolti

Aron lék í öruggum sigri Barcelona | Óðinn Þór skoraði fjögur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona hefja tímabilið í Meistaradeild Evrópu á sigri.
Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona hefja tímabilið í Meistaradeild Evrópu á sigri. vísir/getty

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona hófu tímabiliðð í Meistaradeild Evrópu vel. Þeir unnu góðan fimm marka útisigur á Motor Zaporozhye frá Úkraínu. Þá var Óðinn Þór Ríkharðsson heitur er Holstebro lagði Skanderborg í dönsku úrvalsdeildinni.

Leikur Barcelona var ef til vill ekki jafn auðveldur og talið var í upphafi. Liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 13-11. Í þeim síðari spýttu leikmenn Börsunga í lófana og unnu á endanum fimm marka sigur. 

Lokatölur 30-25 Börsungum í vil. Aron gerði eitt mark í liði Barcelona úr fimm skotum. Barcelona hefur þar með tímabilið á sigri og er sem stendur í 2. sæti B-riðils.

Þá var Óðinn Þór heitur í liði Holstebro sem vann góðan sjö marka sigur á Skanderborg í dönsku úrvalsdeildinni. Óðinn Þór skoraði fjögur mörk í 34-27 sigri Holstebro sem er nú með þrjá sigra eftir fjóra leiki. 

Situr liðið í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×