Fjórir nemendur Háskólans í Reykjavík greindust í gær með kórónuveiruna. Smitaðir nemendur eru því orðnir sex. Þetta kemur fram í tilkynningu til nemenda skólans sem send var út í morgun.
Þar segir að enginn nemendanna sé alvarlega veikur. Ekki virðist heldur um útbreitt smit innan skólans að ræða. Fimm af nemunum sex tengist og séu í sama nemendahópi. Hópurinn og kennarar hans munu ekki mæta í skólann meðan smitrakningarteymi vinnur að rakningu og mati á því hverjir þurfi að fara í sóttkví. Þá hafa öll rými sem nemendurnir komu í verið sótthreinsuð.
Nemandinn sem greindist og er ekki tengdur umræddum hóp hefur ekki komið í skólann í nokkurn tíma. Enginn í HR hefur því verið sendur í sóttkví í tengslum við hann.
Skólinn hvetur nemendur og starfsfólk að þiggja boð Íslenskrar erfðagreiningar um skimun fyrir veirunni. Þá biðja stjórnendur alla að gæta vel að almennum sóttvörnum, virkja rakningarappið Rakning C-19 og halda sig heima sé minnsti grunur um smit.
Nítján greindust með kórónuveiruna í gær, þar af voru tólf utan sóttkvíar.