„Við höfum uppgötvað að fyrstu árin, jafnvel meðgangan, skiptir lykilmáli í sambandi við geðheilsu, jafnvel á fullorðinsárum. Þannig að forvarnirnar byrja ekki bara með unglingunum eins og við höfum oft haldið fram, heldur byrja forvarnirnar á meðgöngu og jafnvel fyrir meðgöngu,“ segir Anna María Jónsdóttir geðlæknir. Anna María er í stjórn Geðverndarfélagsins og vinnur nú að forvarnarverkefni sem beinist að fjölskyldum barna, sérstaklega ungra barna. Félagið vinnur að forvörnum í þágu barna og geðheilbrigðis.
„Foreldrar sem hafa orðið fyrir áfalli í bernsku, jafnvel fyrir 18 ára aldur, það getur haft áhrif hvernig þeim gengur að aðlagast foreldrahlutverkinu.“
Hún segir því gríðarlega mikilvægt að hlúa vel að foreldrum á meðgöngu og eftir fæðingu, á þessum mikilvægu mótunarárum í lífi barnsins.
„Við höfum verið að safna verkfærum til þess að geta gert það vel.“
Andrea Eyland ræddi við Önnu Maríu í hlaðvarpinu Kviknar í þætti sem nefnist Tengslin. Anna María segir að lífeðlisfræðilegar rannsóknir á heilaþroska sýni að tengsl og samskipti sé það mikilvægasta til að stuðla að góðum heilaþroska.
„Samskiptafærni, félagslegum þroska, námsþroska og velferð um alla ævi.“
Það væri jafnvel gott að byrja að ræða við verðandi mæður um þeirra áfalla sögu um leið og þær byrja í mæðraverndinni, því þessar mæður gætu verið í áhættuhóp þó að þær séu ekki byrjaðar að sína einkenni kvíða eða þunglyndis.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. Í fyrri hluta þáttar er rætt við Hafdísi Rúnarsdóttur ljósmóður um mikilvægi tengslamyndunar og „húð við húð“ aðferðina.