Erlent

„Ekki nema“ þrjá­tíu stiga hiti á svölum degi í gær

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sara Sweeney slökkviliðsmaður á vettvangi Gaupu-eldsins svokallaða sem nú logar í Angeles-þjóðgarðinum.
Sara Sweeney slökkviliðsmaður á vettvangi Gaupu-eldsins svokallaða sem nú logar í Angeles-þjóðgarðinum. Getty/David McNew/Stringer

Íslenskur kvikmyndatökumaður búsettur í Los Angeles í Kaliforníu lýsir því að reykur liggi yfir allri borginni vegna gríðarlegra gróðurelda sem loga nú í ríkinu. Hvassir vindar og hár lofthiti gera slökkviliðsmönnum erfitt fyrir í baráttunni við eldana. Hátt í fimmtíu stiga hiti hefur mælst á svæðinu undanfarna daga en dagurinn í gær var „svalur“, að sögn kvikmyndatökumannsins, aðeins um þrjátíu stiga hiti.

Gróðureldar loga nú víða á vesturströnd Bandaríkjanna. Rúmlega hálf milljón íbúar Oregonríkis hafa þurft að flýja heimili sín undan eldunum og þá er ástandið einnig afar slæmt í Washington og Kaliforníu.

G. Magni Ágústsson kvikmyndatökumaður býr og starfar í Los Angeles. Hann lýsti því í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun að stór eldur hefði logað stjórnlaust norðan við borgina að undanförnu en nú væri búið að ná tökum á honum. Fleiri eldar loga þó í grennd við borgina, nánar tiltekið í fjöllunum í Angeles-þjóðgarðinum. Þá hefði hitabylgja gengið yfir Los Angeles um síðustu helgi, sem ekki hefði bætt ástandið.

„Þar sem við búum var hátt í 50 gráðu hiti en það hefur verið svo mikill reykur yfir borginni að hitinn hefur lækkað og það var frekar svalt í dag, ekki nema þrjátíu og ein, tvær gráður, […9 Sólin sést bara sem gulur blettur. Birtan er frekar brún og það er reykur yfir öllu,“ sagði Magni.

„Og af því að vindurinn kemur að norðan þá fáum við líka Norður-Kaliforníureykinn yfir okkur og alla öskuna og allt saman. Það snjóar stundum hálfgerðum púðursnjó.“

Þá lýsti Magni mikilli þurrkatíð á svæðinu sem einnig er til þess fallin að bæta í eldsmatinn.

„Ég man ekki hvenær rigndi hjá okkur síðast. Ég held það hafi verið í maí, júní, þá rigndi í einhvern klukkutíma. Þannig að það rignir mjög lítið,“ sagði Magni.

„Um helgina var meðalvindhraðinn svona 15 m/s og vindhviðurnar um 25 m/s, þannig að þetta er mjög öflugt.“

Rúmlega hundrað eldar loga nú í tólf ríkjum á vesturströnd Bandaríkjanna. Að minnsta kosti tíu hafa látist í Kaliforníu og eignatjón er gífurlegt. Alls hafa rúmlega fjórar milljónir ekra brunnið, svæði á stærð við Wales.

Einn stærsti eldurinn, sem kallaður er Almeda-eldurinn, logar í grennd við landamæri Oregon að Kalíforníu. Grunur leikur á íkveikju í því tilfelli en að minnsta kosti tvö dauðsföll eru rakin til eldsins og hundruð húsa hafa orðið honum að bráð.

Viðtalið við Magna í Bítinu má hlusta á í heild hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Stór hluti bæjar brann til kaldra kola

Íbúar bæjarins Phoenix í Oregon í Bandaríkjunum eru agndofa eftir að stór hluti bæjarins brann til kaldra kola í einum þeirra fjölmörgu gróðurelda sem loga á Vesturströnd Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×