Kvikmyndir sem hyggja á Óskarstilnefningu munu þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði, sem tryggja eiga fjölbreytni meðal leikaraliðs og framleiðslu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bandarísku kvikmyndaakademíunni.
Skilyrðin eru fjögur talsins en kvikmyndir sem sækjast eftir tilnefningu til Óskarsins frá og með verðlaunahátíðinni árið 2025 þurfa að uppfylla að minnsta kosti tvö þeirra. Skilyrðin lúta að því að fulltrúar minnihlutahópa starfi í sem flestum deildum kvikmyndaframleiðslunnar. Eftirfarandi deildir eru tilgreindar, þar sem fulltrúa minnihlutahópa er krafist:
- Hið minnsta einn leikari í aðalhlutverki, eða mikilvægu aukahlutverki, þarf að tilheyra einhvers konar minnihlutahópi
- Listrænir stjórnendur, millistjórnendur og tökulið
- Launaðir starfsnemar
- Kynningar- og markaðsmál
Samkvæmt akademíunni teljast ýmsir kynþættir og þjóðarbrot til minnihlutahópa, auk kvenna, hinseginfólks og fólks með fötlun.
Akademían hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár sökum einsleits hóps sem hlotið hefur tilnefningar. Gagnrýnisraddir hófu að hljóma sérlega hátt eftir að aðeins hvítir leikarar voru tilnefndir til Óskarsverðlaunanna árið 2016. Akademían hét því í kjölfarið að fjölga umtalsvert meðlimum sem tilheyra minnihlutahópum til að stuðla að fjölbreytni við tilnefningar.