Erlent

Khamenei segir furstadæmin hafa svikið aðra múslima

Samúel Karl Ólason skrifar
Ayatollah Ali Khamenei hélt ræðu í dag þar sem hann ræddi hin meintu svik.
Ayatollah Ali Khamenei hélt ræðu í dag þar sem hann ræddi hin meintu svik. AP/Skrifstofa Khamenei

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Íran, segir Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa svikið önnur ríki múslima og Palestínumenn með samkomulagi ríkisins við Ísrael. Hann sagði að samkomulagið muni ekki vara til lengdar en það myndi skömm furstadæmanna gera. Hún myndi vara að eilífu.

Khamenei kallaði í ræðu sem hann hélt í dag eftir því að furstadæmin hættu við ákvörðun sína og bættu fyrir aðgerðir sínar.

Fyrstu farþegaflugvélinni var í gær flogið á milli Ísrael og furstadæmanna. Þar að auki hefur leyfi fengist fyrir því að fljúga í gegnum lofthelgi Sádi-Arabíu.

Furstadæmin og yfirvöld í Ísrael samþykktu nýverið, með milligöngu Bandaríkjanna, að koma á formlegum samskiptum. Með því urðu furstadæmin þriðja arabaríkið og það fyrsta við Persaflóa sem tekur upp hefðbundin samskipti við Ísrael. Hin ríkin eru Egyptaland og Jórdanía.

Á bakvið tjöldin hafa ríkin þó um nokkuð skeið átt í samstarfi sem hefur einmitt beinst gegn Íran.

Eins og fram kemur í grein Reuters fréttaveitunnar er samkomulagið að miklu leyti til komið vegna óvinskapar bæði Ísrael og furstadæmanna við Íran.

Ráðamenn í Palestínu eru þó verulega ósáttir við samkomulagið og telja það grafa undan baráttu þeirra up sjálfstætt ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×