Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti í gærkvöldi og í nótt að aðstoða nokkra sem höfðu ratað í ógöngur vegna áfengis- og eða fíkniefnaneyslu.
Einn þeirra var að faðma ljósastaur á Vesturlandsvegi þegar lögreglan hafði afskipti af honum. Sá reyndist hafa vörur innanklæða sem hann gat ekki gert grein fyrir og var vörunum skilað í næstu verslun.
Þetta kemur fram í skeyti frá lögreglunni. Þar segir að annars hafi næturvakt lögreglu verið stóráfallalaus og flestir verið til fyrirmyndar.
„Fáeinar tilkynningar um hávaða bárust lögreglu, en í einu tilviki lét fólk sér ekki segjast og hélt uppteknum og fór svo að karl og kona voru handtekin á vettvangi í austurborginni og vistuð í fangageymslu.
Þá var brotist inn í bifreið í miðborginni og úr henni stolið tveimur golfsettum. Einnig var tilkynnt um innbrot í söluturn, en ekki liggur fyrir hverju var stolið,“ segir í tilkynningunni.