Kona var tekin með mikið magn af kannabisefni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrr í mánuðinum. Hún var að koma frá Malaga á Spáni þegar tollgæslan stöðvaði hana.
Í ferðatösku sinni reyndist hún vera með tæp fimmtán kíló af efninu að því er fram kemur í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum sem handtók konuna.
Var hún í framhaldinu úrskurðuð í gæsluvarðhald og sætir hún nú tilkynningaskyldu.
Þá rannsakar lögreglan á Suðurnesjum nú mál rúmlega þrítugs karlmanns sem var með nær 300 töflur af oxycontin í fórum sínum við komuna hingað til lands.
Tollgæsla hafði afskipti af honum og fann töflurnar. Maðurinn var að koma frá Gdansk í lok síðasta mánaðar og var hann handtekinn og fluttir í fangaklefa. Hann var látinn laus að skýrslutöku aflokinni.