Erlent

Dánarbú Leonard Cohen ósátt við bíræfna notkun Repúblikana á Hallelujah

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Leonard Cohen á tónleikum árið 2009.
Leonard Cohen á tónleikum árið 2009. Getty/Michael Loccisano

Dánarbú kanadíska tónlistarmannsins Leonard Cohen er ósátt við skipuleggjendur landsþings Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, sem spiluðu lag hans Hallelujah í tvígang á landsþinginu, eftir að hafa fengið þvert nei frá forsvarsmönnum dánarbúsins.

Cohen lést árið 2016 og síðan þá hefur dánarbú hans farið með höfundarrétt hins mikla sköpunarverks Cohen, sem var afkastamikill tónlistarmaður og skáld.

Í færslu á Facebook-síðu Cohen segir í yfirlýsingu frá dánarbúinu og Sony ATV Music, útgefenda Cohen, að þar á bæ séu menn afar hissa og óánægðir með að forsvarsmenn Repúblikana hafi látið spila lagið, þrátt fyrir að hafa ekki fengið leyfi til þess fyrirfram.

Þá segir í yfirlýsingunni að háttsemi forsvarsmanna landsþingsins sé bíræfin, því að dánarbúið hafi hafnað beiðni um heimild fyrir því að lagið væri spilað á landsþinginu, þar sem Donal Trump, forseti Bandaríkjanna, tók formlega við útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokksins í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Þá segir einnig í yfirlýsingunni sem sjá má hér að ofan að forsvarsmenn dánarbúsins séu ekki ánægðir með að Repúblikanir hafi reynt að nýta sér eitt mikilvægasta lag Cohen í pólitískum tilgangi.

„Ef forsvarsmenn landsþingsins hefðu óskað eftir því að spila lagið You Want it Darker, sem Leonard fékk Grammy fyrir árið 2017, hefðim við íhugað það“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×