Erlent

Samúðarkveðjur og faraldur í nútíð stóðu upp úr í ræðu Melaniu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Melania Trump flutti ræðu sína í rósagarði Hvíta hússins að viðstöddum áhorfendum, í þeirra hópi var eiginmaðurinn.
Melania Trump flutti ræðu sína í rósagarði Hvíta hússins að viðstöddum áhorfendum, í þeirra hópi var eiginmaðurinn. Getty/ Alex Wong

Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna biðlaði til þjóðar sinnar að láta af ofbeldi og glæpum í ræðu sinni í gærkvöldi, sem hún flutti í tilefni af landsfundi Repúblikana. Vísaði hún þar einkum til átaka sem orðið hafa milli þeldökkra og lögreglu í Wisconsin nýverið. Þá ræddi hún jafnframt um kórónuveirufaraldurinn í nútíð og vottaði aðstendum látinna samúð, það þykir greinendum eftirtektarvert.

Melania Trump heldur sig yfirleitt til hlés, en ræða hennar var flutt í rósagarði Hvíta hússins fyrir framan lítinn hóp áhorfenda. Eiginmaður hennar, Donald Trump Bandaríkjaforseti, var þeirra á meðal. Demókratar telja gagnrýnivert að hún hafi flutt ræðu sína við Hvíta húsið, það sé léleg nýting á opinberum fjármunum og að kosningaræður sem þessar skuli heldur fluttar innan landsfundarumgjarðarinnar.

Forsetafrúin hvatti Bandaríkjamenn til að sameinast og láta kynþáttafordóma aldrei ráða för, saga landsins hefði ekki alltaf verið falleg. Bandaríkjamenn væru ekki stoltir af öllu því sem gert hefði verið í fortíðinni, en hún lagði áherslu á að litið væri til framtíðar um leið og menn dregðu lærdóm af því sem liðið væri. 

Þá vottaði forsetafrúin samúð sína þeim sem ættu um sárt að binda vegna faraldurs kórónuveirunnar. Umfjöllun hennar um faraldurinn var jafnframt í nútíð, þ.e. að hann sé enn yfirstandandi. Það þykir greinendum vestanhafs eftirtektarvert því fyrri ræðumenn, eins og efnahagsráðgjafinn Larry Kudlow, hafi látið að hljóma eins og farsóttin sé vandamál fortíðar. Smittölur í Bandaríkjunum segja hins vegar aðra sögu.

Að sama skapi hafi lítið verið um samúðarkveðjur á flokksþinginu til þessa. CNN slær því þannig upp að „loksins“ votti forsetafrúin samúð sína til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna faraldursins.

Melania Trump hrósaði jafnframt eiginmanni sínum fyrir einlægni og sagði að hreinskilni væri það sem þjóðin ætti skilið frá forseta landsins. Bandaríkjaforseti segi það sem hann hugsar. Samkvæmt skoðanakönnunum er stuðningur við Trump Bandaríkjaforseta heldur minni en við Joe Biden forsetaframbjóðanda Demókrata.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×