Alvarleg líkamsárás var framin í Vestmannaeyjum liðna nótt. Ráðist var á mann á fertugsaldri með einhverju áhaldi og hlaut hann alvarlega áverka í árásinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Sá er ráðist var á kannaðist ekki við árásarmanninn og sagði hann hafa verið með andlitið hulið, svo að hann þekkti hann ekki.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu þá er árásarmaðurinn um 190 cm á hæð, grannvaxinn og líklega dökklæddur.
Árásin átti sér stað á götunni sunnan við vestustu raðhúsalengjuna í Áshamri á milli kl. 02:00 og 02:15 og eru þeir sem urðu varir við árásina eða grunsamlegar mannaferðir í bænum síðastliðna nótt beðnir að hafa samband við lögregluna í Vestmannaeyjum í síma 444 2091 eða á facebooksíðu lögreglu.
Einnig er hægt að hafa samband með tölvupósti í póstfangið vestmannaeyjar@logreglan.is.