Fótbolti

Segja Djurgården hafa á­huga á Kára Árna­syni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kári Árnason glaðbeittur.
Kári Árnason glaðbeittur. vísir/getty
Fotbollskanalen í Svíþjóð greinir frá því að Djurgården hafi áhuga á að klófesta Kára Árnason, miðvörð íslenska landsliðsins og Víkinga, á skammtímasamning fram á sumar.

Fótbolti.net greinir fyrst frá hér á landi en sænska liðið sendi Marcus Danielson til Dalian fyrir um 50 milljónir sænskra króna nýlega. Liðið hefur þá verið að leitast eftir miðverði og Sotirios Papagiannopoulos, miðvörður FCK, hefur verið nefndur til sögunnar en liðin hafa ekki náð saman.







Miðillinn greinir frá því að nú horfi Djurgården til Íslands, að fá hinn 37 ára gamla Kára á samning þangað til á sumar. Bosse Andersson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Djurgården, segist hafa rætt við Kára í síma í síðustu viku en vildi ekki gefa upp hvað fór þeirra á milli.

Kári sagði sjálfur í samtali við Fotbollskanalen að hann hafi ekkert heyrt um möguleg skipti til Svíþjóðar og það sé ekki eitthvað sem hann hugsi um. Hann sagðist þó bera tilfinningar til félagsins.

Hann varð sænskur meistari með liðinu árið 2005 en lék einnig með liðum eins og AGF og Aberdeen í atvinnumennskunni en hann snéri heim til Víkinga á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×