Innlent

Hvassviðri og snjókoma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það mun eitthvað snjóa á Vestfjörðum í dag.
Það mun eitthvað snjóa á Vestfjörðum í dag. vísir/samúel

Það er útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðaustan- og austanátt í dag en hægari vindur verður þó austan lands. Þá mun stór hluti höfuðborgarsvæðisins vera í þokkalegu skjóli að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Allvíða á norðurhelmingi landsins mun snjóa, ýmist í formi élja eða samfelldri snjókomu. Sunnan lands má síðan búast við slyddu eða snjókomu því úrkomubakki verður þar viðloðandi. Faxaflóasvæðið sleppur þó að mestu við úrkomu í dag. Hiti verður í kringum frostmark.

„Á morgun (laugardag) er minnkandi norðanátt í kortunum með dálitlum éljum, en yfirleitt úrkomulaust sunnan til á landinu. Það kólnar smám saman í veðri.

Á sunnudag gera spár ráð fyrir að gangi í stífa vestan- og suðvestanátt með éljagangi, en þurrt og bjart veður um landið austanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Norðaustan og austan 13-20 m/s í dag, en hægari vindur austanlands. Snjókoma eða él um landið norðanvert, slydda eða snjókoma sunnanlands, en þurrt að mestu við Faxaflóa. Hiti kringum frostmark.

Norðlæg átt 8-13 á morgun og él, en þurrt sunnan til á landinu. Vægt frost. Lægir undir kvöld og kólnar meira.

Á laugardag:

Norðlæg átt 5-13 m/s og él, en þurrt að kalla sunnanlands. Frost 0 til 4 stig. Lægir um kvöldið og kólnar.

Á sunnudag:

Suðvestan- og vestanátt, víða 10-15 og él, en bjartviðri um landið austanvert. Frost 0 til 6 stig.

Á mánudag:

Suðlæg átt 5-10. Snjókoma á Suður- og Vesturlandi, en bjart veður norðaustan til á landinu. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Austlæg eða breytileg átt og líkur á éljum eða snjókomu í flestum landshlutum. Áfram frost um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×