Fótbolti

Maðurinn sem stríddi Man Utd mikið í fyrri leiknum verður ekki með í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Dennis fagnar marki sínu á móti Manchester United.
Emmanuel Dennis fagnar marki sínu á móti Manchester United. Getty/Vincent Van Doornick

Manchester United fær belgíska félagið Club Brugge í heimsókn í kvöld í síðari leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Ole Gunnar Solskjaer, knattspyrnustjóri Manchester United, og lærisveinar hans þurfa ekki að hafa ekki áhyggjur af besta manni Club Brugge í fyrri leiknum.

Emmanuel Dennis var besti maður vallarins í fyrri leiknum sem endaði með 1-1 jafntefli á heimavelli Club Brugge. Emmanuel Dennis kom Brugge liðinu meðal annars í 1-0 á 15. mínútu í fyrri leiknum í síðustu viku en Anthony Martial jafnaði metin á 36. mínútu.



Nú er hins vegar ljóst að meiðslin, sem Emmanuel Dennis varð fyrir um helgina í leik á móti Charleroi, eru það alvarleg að hann missir af leiknum í kvöld. Fyrirliðinn Ruud Vormer er líka óleikfær.

Emmanuel Dennis er 22 ára Nígeríumaður sem hefur skorað 9 mörk fyrir Club Brugge í öllum keppnum á þessu tímabili.

Þetta er mikill missir fyir belgíska liðið sem verður að skora á Old Trafford til þess að komast áfram í sextán liða úrslitin.

Það er ljóst að þarna fer alvöru maður. Emmanuel Dennis skoraði líka tvö mörk í 2-2 jafntefli á móti Real Madrid á sjálfum Santiago Bernabéu í Meistaradeildinni í október. Hann er því vanur að skapa usla á móti stóru klúbbunum.

Leikur Manchester United og Club Brugge hefst klukkan 20.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×