Innlent

Kompás tilnefndur til Blaðamannaverðlauna Íslands

Sylvía Hall skrifar
Kompás er sýndur á Vísi og á Stöð 2 Maraþon.
Kompás er sýndur á Vísi og á Stöð 2 Maraþon.

Þau Erla Björg Gunnarsdóttir, Nadine Guðrún Yaghi og Jóhann K. Jóhannsson hjá fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar hafa verið tilnefnd til Blaðamannaverðlauna Íslands í flokknum viðtal ársins. Viðtalið og umfjöllunin sem um ræðir fjallaði um sautján ára stúlku sem hafði verið lokuð á heimili með geðveikri móður.

Viðtalið var sýnt í fréttaskýringaþættinum Kompás sem sýndur er á Vísi og Stöð 2 Maraþon. Framleiðandi þáttanna er Arnar Jónmundsson.

Sjá einnig: Lokuð á heimilinu með geðveikri móður

„Vandað viðtal við 17 ára stúlku, Margréti Lillý Einarsdóttur, sem lýsir því hvernig samfélagið brást henni þegar hún á grunnskólaaldri ólst upp ein hjá móður sem átti við bæði geðrænan vanda og fíknivanda að stríða,“ segir í tilnefningunni. Umfjöllun Kompáss var svo fylgt eftir í fréttum sem leiddi til þess að bæjarstjóri Seltjarnarness baðst formlega afsökunar á því hvernig staðið var að málum í tilviki stúlkunnar.

 

Margréti Lillý Einarsdóttur lýsir því í viðtalinu hvernig samfélagið brást henni þegar hún á grunnskólaaldri ólst upp ein hjá móður sem átti við bæði geðrænan vanda og fíknivanda að stríða. Vísir/Vilhelm

Í sama flokki eru tvö önnur viðtöl tilnefnd. Annars vegar viðtal Orra Páls Ormarssonar hjá Morgunblaðinu við Sævar Þór Jónsson lögmann. Í viðtalinu er fjallað um kynferðisofbeldi sem Sævar Þór varð fyrir á barnsaldri og þau áhrif sem það hafði á hann. Hins vegar er viðtal Ara Brynjólfssonar hjá Fréttablaðinu tilnefnt þar sem hann ræddi við fjóra erlenda vagnstjóra hjá Strætó þar sem þeir lýstu störfum sínum og samskiptum við farþega.

Blaðamannaverðlaunin eru veitt í þremur öðrum flokkum: Besta umfjöllun, rannsóknarblaðamennska og að lokum Blaðamannaverðlaun ársins.

Besta umfjöllun

Arnhildur Hálfdánardóttir, RÚV. Fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Þættirnir eru vandaðir og yfirgripsmiklir þar sem varpað er nýju ljósi á loftslagsvána með því að skoða snertifleti hennar við það mannlega í samfélaginu, siðferði, tilfinningar, sálfræði, trúarbrögð og pólitík. Um er að ræða persónulega og frumlega nálgun að umfjöllun um eitt stærsta verkefni samtímans.

Alma Mjöll Ólafsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Margrét Marteinsdóttir, og Steindór Grétar Jónsson, Stundinni. Fyrir umfjöllun um hamfarahlýnun. Í yfirgripsmikilli og vandaðri umfjöllun fjalla blaðamenn Stundarinnar um fyrirséðar afleiðingar og birtingarmyndir loftslagsvár hér á landi og víðar, aðgerðir stjórnvalda og viðleitni einstaklinga til þess að vega upp á móti skaðlegum umhverfisáhrifum sem stafað geta af daglegu lífi fólks.

Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson, Kjarnanum. Fyrir umfjöllun um efnahagsmál. Í fjölmörgum og upplýsandi fréttaskýringum vörpuðu Magnús og Þórður Snær ljósi á þróun efnahagsmála á umbreytingatímum síðasta árs, þegar samdráttur tók við af alllöngu góðæristímabili. Um er að ræða afar vandaða umfjöllun þar sem efniviður frétta úr viðskipta- og efnahagslífi er greindur og settur fram á skilmerkilegan og skiljanlegan hátt.

Viðtal ársins

Orri Páll Ormarsson, Morgunblaðinu. Fyrir viðtal við Sævar Þór Jónsson lögmann. Í viðtalinu er á næman og nærgætinn hátt fjallað um afar viðkvæmt málefni, kynferðisofbeldi sem viðmælandinn varð fyrir á barnsaldri og þau djúpstæðu áhrif sem atburðurinn hafði á líf hans. Viðtalið, sem er lifandi og lipurlega skrifað, fangar athygli lesandans og heldur henni þar til frásögninni er lokið.

Erla Björg Gunnarsdóttir, Nadine Guðrún Yaghi, og Jóhann K. Jóhannsson, Kompási, Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir viðtal og umfjöllun um barn sem var lokað inni á heimili með geðveikri móður. Vandað viðtal við 17 ára stúlku, Margréti Lillý Einarsdóttur, sem lýsir því hvernig samfélagið brást henni þegar hún á grunnskólaaldri ólst upp ein hjá móður sem átti við bæði geðrænan vanda og fíknivanda að stríða. Viðtalið vakti verðskuldaða athygli og var fylgt eftir með fjölda frétta um stöðu barna í viðkvæmri stöðu, starfsemi barnaverndarnefnda og fleiri þætti og leiddi meðal annars til þess að bæjarstjóri Seltjarnarness baðst formlega afsökunar á því hvernig staðið var að málum í tilviki Margrétar Lillýar.

Ari Brynjólfsson, Fréttablaðinu. Fyrir viðtal við fjóra erlenda vagnstjóra. Í lifandi og skemmtilegu viðtali sem fangar og heldur athygli lesenda ræðir Ari við fjóra erlenda vagnstjóra hjá Strætó sem lýsa lífi sínu, starfi og samskiptum við farþega. Viðtalið sýnir manneskjur á bak við störf og þjóðerni. Viðtalið sem vekur lesendur meðal annars til umhugsunar um hvernig hér er komið fram við starfsfólk sem er af erlendu bergi brotið. Tæknileg útfærsla á viðtali við fjóra einstaklinga í senn er afskaplega vel úr hendi leyst.

Rannsóknarblaðamennska

Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson, Kveik. Fyrir umfjöllun um Procar-málið. Afhjúpun Kveiks um að bílaleigan Procar hefði stundað svindl á neytendum með því að færa niður kílómetrastöðu bílaleigubíla áður en þeir voru seldir vakti hörð viðbrögð og sýndi fram á alvarlega brotalöm í viðskiptum með notaða bílaleigubíla. Umfjöllunin byggði á heimildum og öflugri rannsóknarvinnu sem skilaði sér í afhjúpun sem hefur haft afdrifarík áhrif á viðskipti með notaða bíla.

Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Stefán Drengsson, Kveik og Stundinni. Fyrir umfjöllun um Samherjamálið. Fá mál vöktu meiri athygli í íslensku samfélagi en umfjöllun Kveiks og Stundarinnar í samvinnu við Al Jazeera og Wikileaks um ásakanir á hendur Samherja um mútugreiðslur í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Umfjöllunin byggði staðhæfingum fyrrum starfsmanns Samherja í Namibíu og miklu magni gagna sem einnig voru gerð aðgengileg almenningi á netinu samhliða birtingu frétta af málinu. Umfjöllunin hefur haft mikil áhrif, bæði hér heima og erlendis.

Stefán Einar Stefánsson, Morgunblaðinu. Fyrir bókina „Wow, ris og fall flugfélags“ ásamt fréttum og fréttaskýringum um sama mál í ViðskiptaMogganum. Gjaldþrot Wow air er tvímælalaust eitt stærsta fréttamál síðasta árs og afleiðingar þess gríðarlegar bæði á einstaklinga og efnahagslíf. Í ítarlegum fréttum, fréttaskýringum og bók um málið hefur Stefán Einar dregið fram í margvíslega fleti tengda starfsemi Wow, sögu flugfélagsins og eftirmála gjaldþrotsins. Fréttirnar er vandaðar og ítarlegar, bókin lipurlega skrifuð og upplýsandi um ris og falls flugfélags, sem hafði mikil áhrif á íslenskt þjóðlíf.

Blaðamannaverðlaun ársins

Guðrún Hálfdánardóttir, mbl.is. Fyrir greinaflokkinn Skóli fyrir alla. Um er að ræða yfirgripsmikla röð frétta og fréttaskýringa um stöðu skólamála á Íslandi út frá því sjónarhorni að menntun sé mannréttindi sem allir eigi að njóta. Umfjöllunin varpar ljósi á stöðu mála og veltir upp flötum þar sem úrbóta er þörf, svo sem varðandi skýrleika námskrár og samræmis í vinnuaðferðum á milli, og jafnvel innan einstakra skóla.

Arnar Páll Hauksson, Speglinum, RÚV. Fyrir umfjöllun um kjaramál. Arnar Páll hefur af djúpri þekkingu og áralangri yfirsýn fjallað um kjaramál með afar vönduðum hætti í ótal fréttum og fréttaskýringum á tímum mikils umróts á vinnumarkaði. Hann hefur fjallað ítarlega um hugmyndir og tillögur sem lagðar hafa verið fram í kjaraviðræðum og flytur iðulega fyrstu fréttir af þróun mála.

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, Stundinni. Fyrir vönduð viðtöl og umfjallanir. Í fjölda frétta, fréttaskýringa og viðtala hefur Hólmfríður Helga sýnt afar vönduð vinnubrögð í umfjöllun um margvísleg viðkvæm málefni og brotalamir í íslensku samfélagi. Má þar nefna vandaða umfjöllun um stöðu kvenna frá löndum utan EES sem hafa fest í ofbeldissamböndum hér á landi og upplýsandi viðtöl og umfjöllun um fjölskyldur sem fundið hafa skjól á Íslandi eftir erfiðleika í heimalöndum sínum. Hólmfríður hefur lagt mikið af mörkum við að lyfta röddum og greina frá reynslu fólks sem ekki á jafngreiðan aðgang að fjölmiðlum og margir aðrir.


Tengdar fréttir

Seltjarnarnesbær biður Margréti Lillý afsökunar

Seltjarnarnesbær biður Margréti Lillý Einarsdóttur, sem þola mátti ofbeldi og vanrækslu í æsku, afsökunar. Bæjarfulltrúi segir málið endurspeglast af meðvirkni og frændhygli og semja eigi um miskabætur.

Sorgmæddur vegna máls Margrétar Lillýjar

Félagsmálaráðherra segir mál sautján ára stúlku sem steig fram í Kompás og sagði frá vanrækslu og ofbeldi í barnæsku sorglegt. Ný barnaverndarlöggjöf eigi að koma veg fyrir mál af þessum toga og að styðja þurfi börn sem búa hjá foreldri með geðsjúkdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×