Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin í 92. sinn í Dolby-kvikmyndahúsinu í Los Angeles í nótt. Augu Íslendinga beinast flest að tónskáldinu Hildi Guðnadóttur, sem tilnefnd er í flokki frumsamdrar kvikmyndatónlistar fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker.
Hildur þykir líklegust til að hreppa Óskarinn í þetta sinn og ef hún ber sigur úr býtum verður hún fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarsverðlaun - og bætir jafnframt enn einum verðlaununum við hið stóra safn sem hún hefur sankað að sér undanfarna mánuði.
Sjá einnig: Þessi eru tilnefnd til Óskarsverðlauna
Vísir fylgist með Óskarsverðlaunahátíðinni í beinni textalýsingu í alla nótt í vaktinni hér neðst í fréttinni. Þá verður bein sjónvarpsútsending frá Óskarnum á RÚV frá miðnætti.
Bein útsending frá rauða dreglinum hefst svo strax klukkan 23:30 á Twitter-reikningi Bandarísku kvikmyndaakademíunnar. Beinu útsendingu Entertainment Weekly af dreglinum má nálgast í spilaranum hér að neðan.
Gera má ráð fyrir að athöfnin verði að minnsta kosti þrír klukkutímar. Verðlaunin í flokki Hildar, frumsamdrar kvikmyndatónlistar, verða afhent 19. í röðinni af 24.
Fylgjast má með helstu vendingum næturinnar, og nálgast hafsjó af Óskarsfróðleik, í vaktinni hér að neðan.