Viðskipti innlent

Fá vilja fjölmiðlafrumvarp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti fyrir fjölmiðlafrumvarpinu um miðjan desember eftir langa fæðingu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti fyrir fjölmiðlafrumvarpinu um miðjan desember eftir langa fæðingu. Vísir/vilhelm

Rúmlega 44 prósent segjast andvíg hugmyndum um fjárstuðning við einkarekna fjölmiðla. Aðeins fjórðungur er þeim hlynntur og næstum 30 prósent segjast hvorki hlynnt né andvíg ef marka má könnun Fréttablaðsins.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti fyrir breytingum á lögum um fjölmiðla á Alþingi um miðjan desember. Verði frumvarp hennar samþykkt geta einkareknir fjölmiðlar átt rétt á stuðningi frá hinu opinbera að uppfylltum skilyrðum. Frumvarpið felur meðal annars í sér ákvæði um endurgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla en 400 milljónir hafa verið eyrnamerktar í fjárlögum næsta árs til stuðnings við fjölmiðla.

Fjölmiðlafrumvarpið svokallaða hefur ekki síst strandað á andstöðu innan stjórnarliðsins. Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa margir lýst efasemdum um núverandi útfærslu málsins, telja hana ekki taka nógu vel á því mikla samkeppnisforskoti sem RÚV hefur á fjölmiðlamarkaði.

Þessar efasemdir Sjálfstæðismanna má glöggt lesa úr niðustöðum könnunnar Fréttablaðsins en minnsti stuðningurinn við frumvarpið er einmitt í þeirra röðum. Aðeins 19 prósent þeirra eru fylgjandi frumvarpinu en 55 prósent andvíg. Þá þykir athyglisvert að stuðningurinn við fjölmiðlafrumvarpið meðal Framsóknarmanna sé aðeins 32 prósent, en mennta- og menningarmálaráðherra er úr þeirra röðum. Stuðningurinn við frumvarpið í grasrót þriðja stjórnarflokksins, Vinstri grænna, er ekki mikið meiri eða um 35 prósent.

Í samtali við blaðið segist Lilja geta vel við unað. Hún fagni því að fjórðugur sé málinu fylgjandi og að um 30 prósent hafi ekki enn myndað sér skoðun á málinu. Hún bendir á að sambærilegur stuðningur við einkarekna miðla hafi gefist vel á öðrum Norðurlöndum og vonar að fólk hafi hugrekki til að styðja betur við fjölmiðla landsins. „Lengi hefur verið í umræðunni að fara í aðgerðir en fátt komið fram fyrr en nú,“ segir Lilja.


Tengdar fréttir

Frumvarpið snúist ekki um Ríkisútvarpið

Sú gagnrýni sem fram kom í umræðum um fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra í fyrstu umræðu um málið á Alþingi í gærkvöldi snéri einna helst að því að ekki væri samhliða reynt að stemma stigu við því mikla samkeppnisforskoti sem RÚV hafi á fjölmiðlamarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×