Viðskipti innlent

„Loftslagsbanki“ veitir Veitum fimm­tán milljarða króna lán

Árni Sæberg skrifar
Orkuveitan er móðurfélag Veitna.
Orkuveitan er móðurfélag Veitna. VÍSIR/VILHELM

Fjárfestingarbanki Evrópu, sem kallaður er loftslagsbanki Evrópusambandsins, og Orkuveitan hafa undirritað lánasamning að fjárhæð 100 milljónir evra, ádráttarbært til næstu tveggja ára. Fjármagnið mun nýtast til uppbyggingar innviða hjá dótturfélagi Orkuveitunnar, Veitum. 100 milljónir evra eru um 14,8 milljarðar króna.

Í tilkynningu Orkuveitunnar til Kauphallar segir að fjármögnunin sé liður í langtímaáætlun um styrkingu innviða til að mæta aukinni eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku, varma, rafmagni og heitu vatni, á höfuðborgarsvæðinu. Mikil fjölgun íbúa hafi skapað þörf fyrir nýtt húsnæði og þar með auknar tengingar við veitukerfi, sem kalli á nýjar fjárfestingar og endurnýjun eldri kerfa.

Skref í að tryggja sjálfbæra orku

Fjármagnið verði einnig nýtt til að efla orkuöflun hitaveitunnar og styrkja rafdreifikerfið til að mæta vaxandi þörf vegna orkuskipta, aukins hagvaxtar og stefnu Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040.

„Þessi fjármögnun er mikilvægt skref í að tryggja örugga, sjálfbæra og hagkvæma orku fyrir höfuðborgarsvæðið til framtíðar. Með því að efla rafdreifikerfið styrkjum við afhendingaröryggi rafmagns, og með aukinni varmaframleiðslu undirbúum við samfélagið fyrir áframhaldandi vöxt, orkuskipti og kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Þetta er fjárfesting í grunninnviðum sem mun nýtast heimilum, fyrirtækjum og komandi kynslóðum,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Orkuveitunnar.

Þjónusta sem hafi almannagildi

„Langtímafjárfestingar í sjálfbærum orkukerfum eru forsenda fyrir öruggum og hagkvæmum innviðum. Með því að fjármagna innviðaverkefni Orkuveitunnar styður EIB orkuskipti Íslands og hjálpar höfuðborgarsvæðinu að undirbúa áframhaldandi vöxt með hreinni, öruggri og áreiðanlegri orku,“ er haft eftir Karl Nehammer, varaforseta Fjárfestingarbankans.

Lán Fjárfestingarbankans muni hjálpa til við að mæta áskorunum sem geti dregið úr nauðsynlegum fjárfestingum, svo sem neikvæðum umhverfisáhrifum og þörfinni fyrir að tryggja öruggan aðgang að varma og rafmagni, þjónustu sem hafi mikið almannagildi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×