Lífið

Grindvíkingar þurfa að þola þreyttasta brandara landsins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gos og Hraun er helsta brandarafóðrið í Grindavík þessa stundina, eins og Hallgrímur Hjálmarsson veit manna best.
Gos og Hraun er helsta brandarafóðrið í Grindavík þessa stundina, eins og Hallgrímur Hjálmarsson veit manna best. Vísir/Vilhelm

Söluskálastarfsmenn í Grindavík hafa vart undan við að svara sprelligosum sem spyrjast fyrir um „gos og Hraun“ í skugga jarðhræringanna í sveitarfélaginu. Landris, kvikusöfnun og skjálftavirkni hafa sett svip á bæinn síðustu daga, þannig hrukku margir Grindvíkingar upp með andfælum í nótt þegar tveir jarðskálftar yfir þremur að stærð riðu yfir Reykjanesið.

Sjoppugestir hafa gengið á lagið og slegið á létta strengi af þessu tilefni, það þótti fyndið í fyrstu en fjarað hefur undan gríninu eftir því sem endurtekningunum fjölgar. „Það hafa verið margir grínarar, svolítið mikið af djókurum,“ eins og Hallgrímur Hjálmarsson, starfsmaður söluskálans Aðal-Brautar í Grindavík, kemst að orði.

Jarðhræringarnar við Þorbjörn hafa verið Íslendingum hugleiknar undanfarna viku. Lýst hefur verið yfir óvissustigi vegna landriss, boðað var til íbúafundar í Grindavík á mánudag og eru margir bæjarbúnar farnir að setja sig í stellingar - jafnvel með tilbúna tösku út í bíl með vistum fari svo að rýma þurfi bæinn með hraði.

Í ljósi allrar athyglinnar sem Grindavík hefur fengið á síðustu dögum er því kannski ekki nema von að kankvísir landsmenn hafi gripið tækifærið og gert sér brandaramat úr vendingum vikunnar. Nú þykir mörgum Grindvíkingum hins vegar nóg um.

Það er þó ekki þar með sagt að Grindvíkingar séu ekki húmoristar. Þeir hafa sjálfir gantast með hugsanlegt eldgos, eins og Vísir sagði frá í upphafi vikunnar - „ Þýðir ekkert að stressa sig á þessu. Við erum ekkert að fara að stjórna þessu,“ að sögn Grindvíkingsins Jóns Gauta Dagbjartssonar.

Hallgrímur í Aðal-Braut tekur í sama streng. „Við Grindvíkingar erum með mikinn húmor, við erum kaldhæðið fólk og erum ekki að taka lífinu of alvarlega,“ segir Hallgrímur. Enn hafi ekkert stórvægilegt gerst við Þorbjörn og engin merki um eldsumbrot enn, þó svo að jarðskjálftarnir í nótt hafi vissulega skotið mörgum bæjarbúum skelk í bringu.

Sem fyrr segir eru flissandi ferðalangar einna helst að spyrjast fyrir um „gos og Hraun,“ sem óneitanlega hafa verið í umræðunni undanfarna daga. Aðspurður um hvort þetta hafi skilað sér í aukinni sölu á þessum vörum segir Hallgrímur svo ekki vera. „En það er spurt um þetta til að byrja með, áður en fólk pantar sér eitthvað annað.“

Þrátt fyrir að brandarinn hafi gengið sér til húðar segist Hallgrímur ekkert vera að pirra sig um of á þessu. „Þetta er bara einn af fylgifiskum jarðhræringanna,“ segir Hallgrímur stóískur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×