Innlent

Þrír hand­teknir vegna gruns um rán og líkams­á­rás

Atli Ísleifsson skrifar
Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu.
Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi þrjá menn vegna gruns um rán, líkamsárás, brot á vopna- og lyfjalögum og akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem kemur fram að mennirnir hafi verið handteknir í hverfi 113 og að tilkynning hafi borist skömmu eftir klukkan 23 í gærkvöldi.

Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu, en ekki er vitað um meiðsl mannsins sem ráðist var á.

Í dagbók lögreglu segir enn fremur að fjórir handteknir í fjölbýlishúsi í neðra Breiðholti um klukkan 22 í gærkvöldi þar sem tilkynnt hafi verið um notkun fíkniefna. Voru mennirnir vistaðir í fangageymslu en þeir eru einnig grunaðir um þjófnað úr verslunum.

Þá segir frá því að skömmu fyrir klukkan 23 í gærkvöldi hafi afskipti verið höfð af konu í matvöruverslun í neðra Breiðholti vegna gruns um þjófnað. „Konan var komin framhjá greiðslukössum er hún var stöðvuð á leið úr versluninni með vörur fyrir tæpar 50 000 kr. Konan kvaðst hafa gleymt að greiða fyrir vörurnar,“ segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×