Innlent

Betlarar reyndu að þröngva dreng til að taka út fé í hraðbanka

Andri Eysteinsson skrifar
Atvikið átti sér stað í námunda við Laugalækjarskóla.
Atvikið átti sér stað í námunda við Laugalækjarskóla. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til skoðunar mál sem snýr að tveimur karlmönnum sem grunaðir eru um að hafa þvingað unglingsdreng til að gefa sér pening. Eru mennirnir sagðir hafa sýnt drengnum mynd af vannærðu barni og sagt að þeir þyrftu pening til þess að geta bjargað barninu.

Eftir að hafa séð að drengurinn væri með debetkort reyndu mennirnir að þröngva hann til þess að taka út meiri pening í hraðbanka. Drengnum tókst að komast undan en móðir hans varaði íbúa Laugarneshverfis við mönnunum á Facebook síðu hverfisins en atvikið á að hafa átt sér stað í námunda við Laugalækjarskóla.

Í samtali við Ríkisútvarpið segir Guðmundur Páll Jónsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að um sé að ræða fyrsta skipti sem lögreglan fái tilkynningu um betl með þessum hætti.

Segir Guðmundur að málið verði skoðað eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×