Björgunarskip og lóðsbátur voru kölluð út í kvöld vegna bilunar um borð í línubát. Nærliggjandi togarar voru einnig beðnir um að aðstoða. Skipið var suðaustur af Grindavík og var ekki talin hætta á ferðum. Brugðist var þó hratt við enda slæm veðurspá.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kom upp bilun í stjórnkerfi bátsins. Tókst þó að laga bilunina og skipinu var siglt í land á eigin vélarafli, í fylgd björgunarbáts. Þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti því ekki að aðstoða við útkallið. Skipið er nú komið í höfn í Grindavík.
