Erlent

Eftirmaður Soleimani heitir því að reka Bandaríkin frá Miðausturlöndum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ali Khamenei æðstiklerkur grætur yfir kistu Soleimani herforingja í Teheran í dag.
Ali Khamenei æðstiklerkur grætur yfir kistu Soleimani herforingja í Teheran í dag. AP/Íranska sjónvarpið

Esmail Ghaani, nýr yfirmaður sérsveita íranska byltingarvarðarins, hét því að reka Bandaríkin frá Miðausturlöndum við útför Qasem Soleimani, forvera hans, sem Bandaríkjaher réði af dögum í síðustu viku að skipan Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hundruð þúsunda Írana fylgdu Soleimani til grafar í Teheran í dag.

Soleimani féll í drónaárás Bandaríkjahers á bílalest hans á flugvelli í Bagdad á aðfararnótt föstudags. Líkkista hans og Abu Mahdi al-Muhandis, leiðtoga vopnaðra sveita sjíamúslima sem njóta stuðnings Írana og féll einnig í árásinni, voru bornar um götur Teheran í dag. Khamenei æðstiklerkur Írans sást fella tár yfir kistu Soleimani, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Guð almáttugur hefur lofað að hefna píslarvottsins Soleimani. Það verður sannarlega gripið til aðgerða,“ sagði Ghaani, sem tekur við stjórn Quds-sérsveitarinnar af Soleimani, við íranska ríkissjónvarpið. Fleiri íranskir leiðtogar hafa hótað hefndum án þess að skilgreina frekar í hverju þær gætu falist, að sögn Reuters.

„Fjölskyldur bandarískra hermanna munu verja dögum sínum í að bíða dauða barnanna sinna,“ sagði Zeinab, dóttir Soleimani, við mannfjöldann í Teheran við fagnaðarlæti.

Ghaani er sagður hafa verið undirmaður Soleimani til lengri tíma. Bandaríkjastjórn hefur beitt hann refsiaðgerðum vegna aðildar að aðgerðum í Írak, Líbanon og Jemen frá árinu 2012.

Esmail Ghaani hefur verið næstráðandi Soleimani undanfarin ár. Hann tekur nú við Quds-sveitunum og heyrir beint undir æðstaklerkinn.AP/Mohammad Ali Marizad

Ítrekar hótanir um að ráðast á menningarminjar

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að ráðast á 52 skotmörk innan Írans, þar á meðal menningarminjar, svari írönsk stjórnvöld fyrir morðið á Soleimani. Forsetinn ítrekaði hótunina jafnvel eftir að Mike Pompeo, utanríkisráðherra, hafði reynt að bera hana til baka eftir að hún var fyrst sett fram í tísti í gær. Slíkar árásir gætu talist stríðsglæpur.

Morðið á Soleimani hefur valdið mikilli spennu í Miðausturlöndum. Írakska þingið samþykkti tillögu um að erlendu herliði yrði vísað úr landi. Bandaríkjaher hefur fellt niður frekari aðgerðir gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams í Írak vegna ástandsins og sendiráðslið hefur verið varað við aukinni hættu þrátt fyrir að Pompeo hafi um helgina haldið því fram að morðið á Soleimani hafi aukið öryggi Bandaríkjamanna.

Þá tilkynntu stjórnvöld í Íran í gær að þau ætluðu að hætta að fara eftir kjarnorkusamningum sem þau gerðu við heimsveldin árið 2015. Spennan á milli Bandaríkjanna og Írans hefur aukist til muna eftir að Trump forseti dró Bandaríkin út úr samningum í maí árið 2018.

Æðstiklerkurinn leiðir menn í bæn yfir kistum Soleimani og annarra sem féllu í drónaárás Bandaríkjahers í síðustu viku.AP/Skrifstofa æðstaklerks Írans

Tengdar fréttir

Ísraelskar borgir gætu verið á meðal skotmarka Írans

Fyrrverandi leiðtogi íranska byltingarvarðarins, segir að ísraelsku borgirnar Tel Aviv og Haifa gætu orðið skotmörk hefndarárása íranskra árása, í hefndarskyni fyrir vígið á Qassem Soleimani, háttsettum írönskum hershöfðingja sem féll í drónaárás Bandaríkjamanna í Írak.

Þúsundir komu saman vegna út­farar So­leimani

Gríðarlegur fjöldi kom saman í írönsku höfuðborginni í morgun þar sem útför herforingjans Qasem Soleimani fór fram en hann var ráðinn af dögum af Bandaríkjamönnum í Bagdad í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×