Alls hefja 1.700 nýnemar nám við Háskólann í Reykjavík í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi nú í haust. Aldrei hafa fleiri nýnemar hafið nám í háskólanum og eru þeir tæplega 20 prósent fleiri en í fyrra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum, en auk þess munu um hundrað skiptinemar stunda nám við háskólann á haustönn.
Nýnemadagar fara fram í skólanum í dag og á morgun en þar munu nýnemar hitta kennara sína og samnemendur og fá kynningu á aðstöðu og þjónustu í skólanum, félagslífinu og ýmsu fleiru.
„Vegna sóttvarnartakmarkana var nýnemum skipt upp í hópa og dagskráin stytt frá hefðbundnum nýnemadögum. Í byrjun annar mun háskólinn svo bjóða upp á stutta fyrirlestra á netinu sérstaklega ætlaða nýnemum, um ýmislegt það sem þarf að hafa í huga við upphaf háskólastarfs á tímum covid,“ segir í tilkynningunni.
Samkvæmt reglum verða eins metra nálægðartakmörk í gildi í skólum.