Fótbolti

KSÍ miðar við að boltinn byrji að rúlla á föstudaginn

Sindri Sverrisson skrifar
Hlé hefur verið á íslenska boltanum frá því í lok júlí.
Hlé hefur verið á íslenska boltanum frá því í lok júlí. VÍSIR/VILHELM

Knattspyrnusamband Íslands miðar nú við að keppni í meistaraflokkum í fótbolta, sem og í 2. og 3. flokki, geti hafist að nýju á föstudaginn.

Samkvæmt frétt á vef KSÍ í dag var ákveðið á fundi mótanefndar á mánudag að hefja keppni aftur á föstudag að því gefnu að leyfi fengist frá stjórnvöldum. Heilbrigðisráðherra hefur fengið í hendurnar minnisblað frá sóttvarnalækni þar sem mælt mun vera með því að íþróttir fullorðinna, með snertingu, verði leyfðar að nýju að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nýjar sóttvarnareglur hafa ekki verið kynntar.

Keppni í fótbolta fullorðinna hefur legið niðri frá 31. júlí vegna kórónuveirufaraldursins. Ekki er ljóst hvenær þeir leikir sem síðan þá hefur verið frestað verða leiknir, samkvæmt frétt KSÍ.

Næsti leikur í Pepsi Max-deild karla ætti, ef leyfi fæst, að vera viðureign HK og Fjölnis á föstudagskvöld miðað við núverandi dagskrá. Leika á heila umferð í Pepsi Max-deild kvenna á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×