Innlent

Líkams­á­rás og rán í Skeifunni

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var með áverka í andliti.
Maðurinn var með áverka í andliti. Vísir/Vilhelm

Lögreglu var tilkynnt um líkamsárás og rán í Skeifunni í Reykjavík skömmu eftir miðnætti.

Í skeyti frá lögreglu segir að sjúkralið hafi farið á vettvang þar sem ungur maður var með áverka í andliti, en árásarmenn voru sagðir þrír sem hafi strax farið af vettvangi.

Mennirnir höfðu rænt síma og greiðslukorti unga mannsins, sem var fluttur til aðhlynningar á bráðadeild, en ekki vitað nánar um áverka að svo stöddu og er málið í rannsókn.

Lögregla segir einnig frá því að um kvöldmatarleytið hafi verði tilkynnt um mikinn tónlistarhávaða við Ingólfstorg í miðborginni. Þar voru afskipti höfð af manni á reiðhjóli með stórt hátalarabox. 

„Maðurinn var í annarlegu ástandi og fór að berja rúður á veitingastað eftir að lögregla hafði haft af honum afskipti. Maðurinn er einnig grunaður um hótanir og var hann handtekinn sökum ástands og vistaður í fangageymslu lögreglu,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir einnig frá því að fjögur hafi verið handtekin í íbúð í fjölbýlishúsi í póstnúmeri 105. Þar voru tveir karlmenn og tvær konur grunuð um vörslu og sölu fíkniefna og fleira. Voru þau öll vistuð í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×