Íslenski boltinn

Fullkomin þrenna Ólafar, tveggja marka innkoma Gyðu og endurkoma ÍBV

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir fagnar þriðja marki sínu fyrir Þrótt gegn Stjörnunni.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir fagnar þriðja marki sínu fyrir Þrótt gegn Stjörnunni. vísir/stöð 2 sport

Hvorki fleiri né færri en átján mörk voru skoruð í leikjunum þremur í Pepsi Max-deild kvenna í gær. Tíu þeirra komu í leik Stjörnunnar og Þróttar á Samsung-vellinum í Garðabænum. Leikar fóru 5-5.

Hin sautján ára Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði fullkomna þrennu fyrir Þrótt gegn Stjörnunni. Hún skoraði fyrsta markið með skalla, annað markið með hægri fæti og það þriðja með þeim vinstri. 

Þetta var fyrsta þrenna Ólafar í efstu deild en því miður fyrir hana dugðu mörkin ekki til sigurs. Þróttarar komust fjórum sinnum tveimur mörkum yfir í leiknum en Stjörnukonur gáfust ekki upp og náðu að bjarga stigi.

Hin nítján ára Gyða Kristín Gunnarsdóttir var hetja Stjörnunnar í leiknum í gær. Á 78. mínútu setti Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, Gyðu inn á í stöðunni 3-5, Þrótti í vil. Fimm mínútum síðar minnkaði Gyða muninn í 4-5. Á 88. mínútu skoraði hún svo jöfnunarmark Garðbæinga. Bæði mörkin komu með skotum fyrir utan vítateig.

Þróttur og Stjarnan eru bæði með sjö stig líkt og KR sem tapaði fyrir Þór/KA á Þórsvelli, 2-1. Þetta var fyrsta tap KR-inga eftir sóttkvína sem þær þurftu að fara í.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 53. mínútu kom Lára Kristín Pedersen KR yfir gegn sínum gömlu félögum með skoti af löngu færi. Margrét Árnadóttir jafnaði á 56. mínútu, aðeins mínútu eftir að hún kom inn á sem varamaður.

Margrét fiskaði svo vítaspyrnu þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka. Hún ætlaði að taka vítið en fékk það ekki þar sem hún var með eyrnalokka sem er ekki leyfilegt innan vallar. Margrét fékk gult spjald og þurfti að fara af út af til að fjarlægja eyrnalokkana.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, fór þess í stað á punktinn og skoraði sigurmark heimakvenna. Þetta var fyrsti sigur Þórs/KA í rúman mánuð. Liðið er í 5. sæti með tíu stig.

ÍBV vann sinn annan leik í röð þegar liðið lagði bikarmeistara Selfoss að velli, 3-2, í Eyjum. Það blés ekki byrlega fyrir Eyjakonum í hálfleik en þá voru Selfyssingar 0-2 yfir. Tiffany McCarty og Dagný Brynjarsdóttir (víti) skoruðu mörkin.

Olga Sevcova minnkaði muninn í 1-2 á 50. mínútu og þegar fimm mínútur voru til leiksloka jafnaði Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz metin. Í uppbótartíma skoraði Miyah Watford svo sigurmark ÍBV eftir að hafa sloppið inn fyrir vörn Selfoss.

ÍBV er í 6. sæti deildarinnar með níu stig en Selfoss í því fjórða með tíu stig.

Mörkin átján og viðtöl úr leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild kvenna má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Mörkin úr Pepsi Max deild kvenna

Tengdar fréttir

„Voðalegt hálfkák í fyrri hálfleik”

Andri Ólafsson, þjálfari ÍBV, var að vonum ánægður í eftir ótrúlega endurkomu ÍBV gegn Selfoss í Suðurlandsslagnum í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×