Íslenski boltinn

Á sama tíma á sama stað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á toppnum eftir átta umferðir, líkt og í fyrra.
Á toppnum eftir átta umferðir, líkt og í fyrra. Vísir/Bára

Íslandsmeistarar KR eru á toppi Pepsi Max deildar karla með 17 stig eftir átta umferðir. Liðið hefur gert tvö jafntefli í röð - gegn liðum í neðri helmingi töflunnar - og er umræðan þess efnis að KR-ingum sé að fatast flugið.

Ef síðasta tímabil er skoðað þá eru Íslandsmeistararnir hins vegar á nákvæmlega sama stað og þegar átta umferðum var lokið. Þeir eru eins og Friðrik Dór orðaði svo vel hér um árið: Á sama tíma á sama stað.

Pablo Punyed hefur verið frábær í liði KR í sumar.Vísir/Bára

Íslandsmeistararnir eru eins og áður sagði á toppi deildarinnar. Þeir hafa unnið fimm leiki, gert tvö jafntefli og tapað einum leik. Í öðru sæti koma Valsmenn með 16 stig og þar fyrir neðan eru Breiðablik með 14.

Þá verður að taka Stjörnuna með í myndina en liðið hefur aðeins leikið fimm leiki og er með 13 stig. Þeir eiga enn eftir að tapa leik en Ingvar Jónsson – fyrrum markvörður liðsins – stefnir á að stöðva gott gengi Garðbæinga er liðið heimsækir Víkina í kvöld.

Á síðustu leiktíð voru liðin í öðru og þriðja sæti einnig með 16 stig. Þar sátu Breiðablik og Skagamenn. Það var svo í 10. umferð sem leiðir skildu. Sigurganga KR hélt áfram en hin liðin fóru að tapa stigum.

Það var þá sem KR-ingar fóru virkilega að trúa því að þeir gætu átt þessa stund og þennan stað. Fór það svo að liðið setti met en KR vann deildina með 14 stiga mun.

Að lokum er vert að benda á markatölu KR-liðsins en á síðustu leiktíð hafði liðið skorað 14 mörk og fengið á sig sjö eftir átta umferðir. Í ár hefur liðið skorað 13 mörk og fengið á sig sjö. Það má því með sanni segja að KR-ingar séu að leika sama leik annað árið í röð.

Fyrstu átta leikir KR sumarið 2019

Stjarnan 1-1 KR

KR 3-0 ÍBV

KR 1-1 Fylkir

Grindavík 2-1 KR

KR 3-2 HK

Víkingur 0-1 KR

KR 1-0 KA

ÍA 1-3 KR

Fyrstu átta leikir KR sumarið 2020

Valur 0-1 KR

KR 0-3 HK

ÍA 1-2 KR

KR 2-0 Víkingur

KR 3-1 Breiðablik

Fylkir 0-3 KR

KR 2-2 Fjölnir

KA 0-0 KR


Tengdar fréttir

Beitir: Ég veit ekki á hvað var dæmt

Beitir Ólafsson, markvörður KR-inga var allt í öllu á lokamínútunum þegar KA og KR skildu jöfn í markalausum leik á Akureyri í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×