Íslenski boltinn

Jóhannes Karl átti bágt með að hemja sig og lét dómara heyra það

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson var líflegur á hliðarlínunni hjá ÍA í fyrrakvöld.
Jóhannes Karl Guðjónsson var líflegur á hliðarlínunni hjá ÍA í fyrrakvöld. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Skagamenn voru afar óánægðir með dómgæsluna í 2-1 tapinu gegn Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni í fótbolta á fimmtudag, ekki síst í aðdraganda markanna sem Stjarnan skoraði. Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari liðsins taldi Eyjólf Héðinsson klárlega hafa brotið á Tryggva Hrafni Haraldssyni fyrir fyrsta markið, sem Eyjólfur skoraði einmitt.

Farið var yfir umdeild atvik í leiknum í Pepsi Max-stúkunni í gær þar sem einnig mátti sjá Jóhannes Karl afar líflegan á hliðarlínunni.

„Pétur! Hann bæði sparkar í hann og rífur í hann. Þetta er fáránlegt. Þið eruð alltaf að hvetja menn til að vera í einhverjum dýfum,“ kallaði Jóhannes Karl á Pétur Guðmundsson, sem var varadómari í leiknum, eftir meint brot Eyjólfs.

„Það er mikið til í þessu,“ sagði Hjörvar Hafliðason. „Ef hann [Tryggvi] hefði bara farið niður á hnén hefði hann fengið aukaspyrnuna,“ sagði Hjörvar.

Árni „ekki í ástandi til að verja“ skotið

Í aðdraganda seinna marks Stjörnunnar töldu sérfræðingarnir ljóst að Árni Snær Ólafsson, markmaður ÍA, hefði spyrnt boltanum út fyrir hliðarlínu vegna meiðsla Alex Þórs Haukssonar. Alex skoraði svo strax eftir innkastið.

„Það hefði verið erfitt fyrir hann að sparka eitthvert annað. En hefði hann ekki getað kallað á þann sem tók innkastið; „Heyrðu komdu með boltann, ég var að setja hann út af hérna fyrir ykkur“?“ spurði Hjörvar.

„Þetta virkar á mig þannig, vegna þess að skotið frá Alex er ekki merkilegt, að Árni Snær sé ennþá að velta fyrir sér „af hverju erum við ekki komnir með boltann?“ Því það fyrsta sem hann gerir þegar boltinn fer í netið er að hann stekkur á fætur og rýkur í átt að Stjörnumönnunum. Hann er bara ekki í ástandi til að verja skot þarna,“ sagði Guðmundur Benediktsson.

Jóhannes Karl trúði svo vart eigin augum þegar Skagamenn fengu ekki aukaspyrnu eftir það sem þjálfarinn taldi vera brot á Tryggva Hrafni við vítateig Stjörnunnar, og átti erfitt með að hemja sig eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Jói Kalli og atvik á Akranesi

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×