Handbolti

Þráinn Orri gæti farið til Hauka

Sindri Sverrisson skrifar
Þráinn Orri Jónsson lék eina leiktíð með Bjerringbro-Silkeborg sem reyndar var styttri en ella vegna kórónuveirufaraldursins.
Þráinn Orri Jónsson lék eina leiktíð með Bjerringbro-Silkeborg sem reyndar var styttri en ella vegna kórónuveirufaraldursins. mynd/bjerringbro-silkeborg.dk

Handknattleiksmaðurinn Þráinn Orri Jónsson hefur sagt skilið við danska úrvalsdeildarfélagið Bjerringbro-Silkeborg og gæti verið á heimleið.

Þráinn Orri kom til danska félagsins í fyrrasumar frá einu af bestu liðum Noregs, Elverum. Þar vann hann til fjölda titla á tveimur leiktíðum og lék í Meistaradeild Evrópu, eftir að hafa áður leikið með Gróttu. 

Bjerringbro-Silkeborg var í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þegar mótið var blásið af síðasta vor vegna kórónuveirufaraldursins. Liðið lék einnig í riðlakeppni EHF-bikarsins en þar var keppni aflýst í mars vegna faraldursins.

„Það er rétt ég er að fara þaðan [frá Bjerringbro-Silkeborg] en hvert ég fer er ekki ákveðið,“ sagði Þráinn Orri við Vísi. 

Samkvæmt heimildum Vísis gæti þessi stóri og stæðilegi línu- og varnarmaður verið á leið til Hauka, þar sem hann myndi fylla skarð Vignis Svavarssonar, en Þráinn Orri segir sín mál í lausu lofti. 

Hann útiloki þó ekki að koma heim og spila í Olís-deildinni og hafi rætt við nokkur félög. „Það gæti vel farið svo að ég komi heim ef ekkert djúsí býðst úti,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×