Íslenski boltinn

„Ekki til betri leikur til að rífa sig í gang“

Sindri Sverrisson skrifar
Ásgeir Börkur Ásgeirsson í baráttu við Brynjólf Andersen Willumsson í Kórnum í gærkvöld.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson í baráttu við Brynjólf Andersen Willumsson í Kórnum í gærkvöld. VÍSIR/DANÍEL

„Ég var aldrei stressaður,“ sagði Ásgeir Börkur Ásgeirsson laufléttur í bragði eftir 1-0 sigur HK gegn Breiðabliki í Kópavogsslagnum í Kórnum í Pepsi Max-deildinni í fótbolta.

„Það er alltaf gaman að vinna fótboltaleiki og alltaf gaman að vinna Breiðablik. Ég held að við höfum bara átt þetta skilið. Það kannski lá á okkur á ákveðnum tímapunktum en mér leið aldrei eins og að þetta myndi leka inn hjá þeim,“ sagði Ásgeir Börkur en viðurkenndi þó að það hefði aðeins farið um sig á lokamínútum leiksins, þegar hann var farinn meiddur af velli.

HK hafði tapað fyrstu þremur heimaleikjum sínum í sumar en kom sér þremur stigum frá fallsæti með sigrinum.

„Já, já. Það er nóg eftir af þessu móti en ég er ánægður með leikinn. Við töluðum um það fyrir leik að það væri ekki til betri leikur til að rífa sig í gang en Kópavogsslagurinn. Breiðablik er auðvitað með mjög gott lið, vel drillað lið, eins og við vissum en við erum helvíti góðir líka þó að við höfum ekki náð að sýna það upp á síðkastið. Þetta small hjá okkur í dag,“ sagði Ásgeir Börkur.

Hefðu getað dælt boltum inn í allt kvöld án þess að skora

Hann tók undir að lið HK hefði eftir slaka frammistöðu að undanförnu nú aftur minnt á liðið sem stóð sig svo vel í fyrra:

„Það er kannski óvanalegt hjá okkur í sumar að við höfum verið að hleypa inn mörkum eftir föst leikatriði og annað, en ég held að Breiðablik hefði getað dælt boltum inn í teig í allt kvöld og aldrei skorað. Þannig var tilfinningin í fyrra líka, að það væri ekkert að fara að brjóta okkur.“

Ásgeir Börkur lét finna vel fyrir sér í grannaslagnum og fékk slæm högg, og var með klakapoka og teip um allan fótinn þegar hann ræddi við blaðamann. Hann hafði hlaupið haltrandi um völlinn síðustu mínúturnar áður en honum var skipt af velli seint í leiknum og fann greinilega fyrir höggunum:

„Svo er ég líka bara orðinn gamall. Nei, nei, ég var smá lemstraður fyrir leik og fékk svo „dead leg“ og þeir sem hafa lent í því vita að það er ekki gott. Þetta er bara hluti af fótboltanum – maður meiðir sig,“ sagði þungarokkarinn léttur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×