Innlent

Dular­full sprenging raskaði nætur­svefni Vestur­bæinga

Sylvía Hall skrifar
Miklar umræður hafa skapast á íbúahópi Vesturbæjar á Facebook þar sem flestir segjast hafa heyrt hvellinn við Vesturbæjarskóla og þar nálægt.
Miklar umræður hafa skapast á íbúahópi Vesturbæjar á Facebook þar sem flestir segjast hafa heyrt hvellinn við Vesturbæjarskóla og þar nálægt. Vísir/Vilhelm

Íbúar í Vesturbænum heyrðu háværa sprengingu við Vesturbæjarskóla um klukkan hálf eitt í nótt. Miklar umræður sköpuðust um málið í íbúahóp Vesturbæjar á Facebook og mátti lesa úr þeim að um mikinn hvell hafi verið að ræða.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu barst vissulega tilkynning um sprengingu í Vesturbænum. Lögreglumenn fóru á vettvang en sáu ekkert athugavert og því líklegt að um flugeld eða eitthvað slíkt hafi verið að ræða.

Einn íbúi segir hljóðið hafa verið hræðilegt. Það hafi hljómað eins og það kæmi frá hringtorginu við JL-húsið og lýsir því sem „ærandi og óhugnanlegu“. Þá hafi sumir jafnvel vaknað upp úr værum nætursvefni vegna þessa.

Líkt og áður sagði er talið að sprengingin hafi orðið við Vesturbæjarskóla og lýsir nágranni því að hafa séð reyk við skólann. Einn íbúi sem búsettur er á móti skólanum segir hljóðið hafa verið svo hávært að það hafi verið sem sprengingin væri inni í íbúðinni. 

Einhverjir segjast hafa heyrt hróp skömmu eftir hvellinn en stuttu síðar hafi allt verið með kyrrum kjörum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×