Handbolti

Elín Jóna leikmaður ársins og kampavínið flæddi

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir með verðlaunin sín sem leikmaður ársins.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir með verðlaunin sín sem leikmaður ársins. mynd/@elinjona_96

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handbolta, var um helgina útnefnd besti leikmaður tímabilsins hjá danska félaginu Vendsyssel, annað árið í röð.

Elín Jóna átti stóran þátt í því að Vendsyssel var í efsta sæti dönsku 1. deildarinnar þegar hlé var gert á keppni í mars í vegna kórónuveirufaraldursins. Að lokum var ákveðið að blása tímabilið af og staðan í mars látin gilda sem lokastaða, og því fékk Vendsyssel sæti í úrvalsdeildinni.

Það var ekki fyrr en nú um helgina sem að leikmenn, þjálfarar og aðrir sem koma að Vendsyssel-liðinu gátu fagnað úrvalsdeildarsætinu saman með viðeigandi hætti. Hópurinn snæddi veislumat saman og kampavínið fékk að flæða enda félagið ekki verið í úrvalsdeild frá því að það var stofnað árið 2011. Elín Jóna fékk svo verðlaun sín sem besti leikmaður tímabilsins.

Elín Jóna skrifaði í vor undir nýjan samning við Vendsyssel sem gildir til næstu tveggja ára. Við það tilefni sagði þjálfari liðsins, Kent Ballegaard, að þessi fyrrverandi Haukakona væri án nokkurs vafa besti markvörður deildarinnar og að oft hefði hún tryggt liði sínu sigur. „Hún er mikilvægur hlekkur í framtíð Vendsyssel. Elín gæti átt mjög bjarta framtíð og við ætlum að vinna saman að því, og ég hlakka mikið til þess,“ sagði Ballegaard.

Elín Jóna hefur fengið hornamanninn Steinunni Hansdóttur sem liðsfélaga fyrir næstu leiktíð og eru æfingar hafnar hjá Vendsyssel sem á bikarleik við Horsens 13. ágúst. Fyrsti leikur liðsins í úrvalsdeildinni á að fara fram 26. ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×