Íslenski boltinn

Grinda­vík fyrst til að taka stig af ÍBV | Níu Kefl­víkingar lönduðu sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keflavík vann frábæran sigur á Þór Akureyri í Lengjudeildinni í dag.
Keflavík vann frábæran sigur á Þór Akureyri í Lengjudeildinni í dag. Vísir/Vilhelm

Fjögur af efstu sex liðum Lengjudeildarinnar mættust innbyrðis í dag. Grindavík nældi í stig í Vestmannaeyjum og Keflavík vann Þór Akureyri í hörkuleik. Raunar mættust efstu sex lið deildarinnar öll innbyrðis í umferðinni en Leiknir Reykjavík vann 5-2 sigur á Fram í Safamýrinni í gær.

Grindvíkingar urðu fyrsta liðið til að taka stig af ÍBV er liðin gerðu 1-1 jafntefli í Vestmannaeyjum í dag. Stefán Ingi Sigurðarson kom gestunum frá Grindavík yfir á 27. mínútu leiksins. ÍBV menn eru eflaust mjög ósáttir með varnarleik sinn í markinu.

Það tók heimamenn dágóða stund að jafna metin en Jón Ingason jafnaði metin með frábæru skoti á 66. mínútu og staðan því orðin 1-1. Hvorugu liðinu tókst að knýja fram sigurmarkið og leiknum lauk því með jafntefli.

ÍBV er sem fyrr í efsta sæti Lengjudeildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. Eina liðið sem hefur ekki tapað leik. Grindavík er á meðan enn í 6. sæti með átta stig.

Í Keflavík var Þór frá Akureyri í heimsókn. Heimamenn komust í 2-0 áður en hálftími var liðinn þökk sé mörkum Adam Ægis Pálssonar og Helga Þórs Jónssonar. Frans Elvarsson fékk hins vegar sitt annað gula spjald og þar með rautt á 31. mínútu.

Gestunum tókst þó ekki að minnka muninn en það gerði Alvaro Montejo með marki úr vítaspyrnu á 49. mínútu. Þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka fékk Kian Williams sitt annað gula spjald í leiknum og Keflvíkingar því orðnir níu á vellinum. Þeir héldu þó út og lönduðu mikilvægum 2-1 sigri.

Keflavík kemst upp fyrir Þór með sigrinum en liðið er nú í 3. sæti með 10 stig, Þór er í 5. sæti með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×