Innlent

Guðni vísar því til föðurhúsanna að finna megi „hálf-fasísk“ skilaboð í myndbandinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Bergsson fyrir kappræðurnar í gær.
Guðni Bergsson fyrir kappræðurnar í gær. vísir/vilhelm

Guðni Bergsson formaður KSÍ segir að þeir sem gagnrýnt hafi kynningarmyndband sambandsins á nýju merki landsliða Íslands verði að sjá í hvaða samhengi það er sett fram. Hann vísar því til föðurhúsanna að í því megi finna einhvers konar „hálffasísk skilaboð.“

Myndbandið sem kynnir hið nýja merki til leiks hefur vakið mikla athygli og fengið mikið áhorf. Ekki virðast þó allir vera á eitt sáttir með myndbandið og það myndmál sem finna má í því. Þannig ritaði Illugi Jökulsson bréf til Guðna þar sem hann benti honum á að í myndbandinu væri ýtt undir „hálffasíska en alranga söguskoðun um að Íslendingar þyrftu í sífellu að berjast.“ Gagnrýnin hefur einnig heyrst úr öðrum áttum, líkt og Vísir greindi frá í dag.

Þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis á Bylgjunni slógu á þráðinn til Guðna til að heyra hvað honum þætti um þá gagnrýni sem heyrst hefur.

„Hún hefur vissulega komið mér á óvart. Ég verð nú að segja það. Ég hef nú svarað Illuga og ég vil nú bara benda á í sjálfu sér að það verður að sjá í hvaða samhengi þetta er allt sett fram. Við erum auðvitað að vísa í sagnahefð okkar varðandi landvættina. Þegar við erum að tala um að hrinda einhvers konar árásum þá er þetta auðvitað bara líkingamál,“ sagði Guðni.

„Við erum að tala um gamma, griðung, dreka og bergrisa sem er nú vísbending um það að þetta sé fært í stílinn,“ bætti hann við til að undirstrika mál sitt.

Þá sagði hann að það kæmi ekki til greina að búa til einhverja aðra útgáfu fyrir þá sem ekki tengi við landvættina og annað sem KSÍ vísaði í í myndbandinu. Allir eigi rétt á sínum skoðunum en hann get ekki tekið undir að þarna megi finna einhvers konar hálf-fasísk skilaboð.

„Ég held að þegar grannt er skoðað og ég er búinn að fara yfir myndbandið og lesa textann oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þarna gekk fólki bara eitt gott til og ég algjörlega vísa því til föðurhúsanna að hér sé einhvers konar hálffasísk skilaboð eða eitthvað slíkt. Við erum þarna að skapa ákveðin hughrif.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×