Innlent

Ók vespunni á þann sem tilkynnti þjófnaðinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn sem reyndi að stela ökutækjunum verður kærður fyrir líkamsárás.
Maðurinn sem reyndi að stela ökutækjunum verður kærður fyrir líkamsárás. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók á sjöunda tímanum í gær ungan mann sem staðinn var að þjófnaði á ökutækjum, þremur vespum og einum barnakrossara, í Breiðholti. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi ekið vespu á þann sem tilkynnti þjófnaðinn til lögreglu og „sparkaði ítrekað er hann reyndi að komast undan“. Maðurinn verður kærður fyrir líkamsárás.

Þá handtók lögregla meintan fíkniefnasala eftir að afskipti voru höfð af honum og öðrum manni þar sem þeir sátu í bifreið í Árbæ á tíunda tímanum í gærkvöldi. Hinn meinti fíkniefnasali reyndi að hlaupa af vettvangi en var stöðvaður og vistaður í fangageymslu. Í dagbók lögreglu segir að hann verði kærður fyrir vörslu og sölu fíkniefna, sem og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Meintur kaupandi, sem var ökumaður bifreiðarinnar, afhenti lögreglu fíkniefni og verður kærður fyrir vörslu þeirra. Þá lagði lögregla hald á bíllyklana þar sem ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna en þó ekki gripinn við akstur.

Þá stöðvuðu lögreglumenn ræktun fíkniefna í tvígang í gærkvöldi, annars vegar í fjölbýlishúsi í miðbænum og hins vegar í fjölbýlishúsi í Grafarvogi. Maður var handtekinn á vettvangi ræktunarinnar í miðbænum en var laus að lokinni yfirheyrslu. Lagt var hald á sextán plöntur, sem og búnað til ræktunar. Á síðarnefnda staðnum var einnig lagt hald á plöntur og búnað.

Bifreð var ekið á tré í garði við fjölbýlishús í Breiðholti á tíunda tímanum. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur, sem og akstur án ökuréttinda. Hann var vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×