Innlent

NATO-kafbátur sigldi inn í Sundahöfn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kafbáturinn siglir undir þýskum fána.
Kafbáturinn siglir undir þýskum fána. Vísir/frikki

Kafbátur á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO) var úti fyrir Faxaflóa nú í morgun og sigldi svo inn í Sundahöfn á tíunda tímanum, þar sem hann liggur nú við bryggju. Utanríkisráðuneytið gat ekki veitt upplýsingar um málið að svo stöddu en kafbáturinn er merktur NATO, samkvæmt vefsíðunni Marine traffic.

Kafbáturinn, sem siglir undir þýskum fána, virðist tengjast æfingu NATO undir formerkjunum Dynamic Mongoose, sem haldin verður hér á landi næstu daga. Æfingin hefst 29. júní og stendur yfir til 10. júlí. Áhafnir herskipa, flugvéla og þyrla munu þar æfa það að leita að, elta uppi og granda kafbátum.

Kafbáturinn að sigla inn í Sundahöfn í morgun.Vísir/Frikki

Fram kom í tilkynningu Samgöngustofu í gær að lögregla legði nú bann við drónaflugi á svæðinu við Skarfabakka við Sundahöfn á meðan herskip og kafbátar NATO lægju hér við höfn. Bannið gildir frá deginum í dag til og með mánudeginum 29. júní.

Þá má búast við fleiri skipum hingað til lands vegna æfingarinnar. Þannig er breska herskipið HMS Kent nú skammt undan úti fyrir Faxaflóa og búast má við að skipið komi til hafnar eftir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×