Erlent

Metfjöldi nýsmitaðra á Indlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ný sjúkrarými í Delí.
Ný sjúkrarými í Delí. AP/Manish Swarup

Yfirvöld Indlands opinberuðu í dag að 16 þúsund nýsmitaðir af Covid-19 hafi greinst þar í landi og hefur sú tala aldrei verið hærri. Her Indlands hefur verið kallaður til til að byggja sjúkrahús í Nýju Delí, höfuðborg Indlands. Alls hafa 456.183 smitast á Indlandi, svo vitað sé, og 14.476 hafa dáið, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans sem heldur utan um opinberar tölur.

Í Delí búa rúmlega tuttugu milljónir manna en síðasta sólarhringinn greindust rúmlega 3.900 með Covid-19 þar. Alls hafa tæplega 70 smitast í borginni. Borgaryfirvöld áætla að í lok júlí muni 550 þúsund hafa smitast og er áætlað að þörf verði á 150 þúsund sjúkrarýmum.

Í dag eru þau eingöngu 13.400 og samkvæmt frétt Reuters á herinn að koma upp tuttugu þúsund nýjum rýmum í næstu viku. Mörg þessarar rýma verða opnuð í sérstökum lestum sem herinn mun reka.

Rúmlega 500 lestarvögnum verður komið fyrir á níu stöðum í borginni.

Á vef Times of India segir að nýja kórónuveiran dreifist nú hratt um Indland. Embættismenn hafa kallað eftir því að Indverjar sýni meiri skynsemi og breyti hegðun sinni til að reyna að draga úr dreifingu veirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×