Mikil aukning hefur orðið í umsóknum í Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur umsóknum í grunnnám aukist um 51,1 prósent á milli ára.
Í tilkynningu frá skólanum segir að aukningin sé hlutfallslega langmest í BS-nám í landslagsarkitektúr þar nemur aukningin 240 prósent á milli ára. Fjölgun umsókna í garðyrkjunám á Reykjum nam 45 prósent og umsóknum í búvísindanám fjölgaði um 40 prósent.
„Landbúnaðarháskóli Íslands býr við þá sérstöðu að bjóða bæði upp á háskólanám og starfsmenntanám á framhaldsskólastigi. Aðsókn í starfsmenntanám skólans sló öll fyrri met í vor með samtals 280 umsóknum.
Má þar sérstaklega nefna góða aðsókn í garðyrkjunám á Reykjum þar sem 136 umsóknir bárust og hafa þær aldrei verið jafnmargar í sögu skólans. Flestir sækja um í lífræna ræktun matjurta en þar sóttu 45 nemendur um nám. Aðsókn er einnig góð í ylrækt með 26 umsóknir og 10 í garð- og skógarplöntuframleiðslu.
Á Hvanneyri í Borgarfirði fer starfsmenntanám í búfræði fram og er mjög góð aðsókn þar og komast færri að en vilja. Leitað er leiða til að mæta þessari eftirspurn,“ segir í tilkynningunni.