Skoðun

Mun Mið­flokknum takast að koma í veg fyrir tvö­földun Reykja­nes­brautarinnar?

Ágúst Bjarni Garðarsson og Ólafur Ingi Tómasson skrifa

Miðflokkurinn stundar nú málþóf á þingi og talar við sjálfan sig klukkutímunum saman. Markmiðin virðast skýr; koma í veg fyrir einhverjar mestu uppbyggingu, og flýtingu mjög brýnna og stórra samgönguframkvæmda um land allt, svo lengi sem elstu menn muna og þá fjölgun starfa sem af þeim framkvæmdum munu hljótast. Allt virðist þetta vera gert til að koma í veg fyrir að íbúar og ferðamenn þessa lands búi við sama umferðaröryggi og tíðkast í þeim löndum sem við gjarnan berum okkur saman við.

Mun seinka öllum framkvæmdum

Málið er einfalt; náist ekki að klára samgönguáætlun fyrir þinglok og frumvörp sem eru henni tengd mun allri vinnu við fyrirliggjandi samgönguframkvæmdir tefjast sem því nemur. Ástæðan er sú að Vegagerðinni skortir nauðsynlegar heimildir til að ganga frá samningum, útboð frestast sem síðan hefur það í för með sér að frestun verður á öllu verkinu. Hér erum við að tala um framkvæmdir sem snerta okkur Hafnfirðinga mjög og alla þá sem keyra um svæðið og nágrenni. Hér erum við m.a. að tala um nauðsynlegar úrbætur hjá hringtorginu við Lækjargötu og áfram, ásamt framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni. Sú framkvæmd tekur við af þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi á Reykjanesbrautinni, og við höfum öll tekið eftir og orðið var við, þ.e. tvöföldun frá Kaldárselsvegi – Krýsuvíkurvegi.

Það er mikilvægt fyrir okkur Hafnfirðinga og landsmenn alla að samgönguáætlun klárist. Vonandi sjá þessir ágætu þingmenn Miðflokksins að sér, en það verður að teljast ólíklegt.

Ágúst Bjarni er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og Ólafur Ingi formaður skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×