Íslenski boltinn

Atli Viðar um sóknarleik Vals: Patrick Pedersen alltof djúpur á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjórir KR-ingar í kringum Patrick Pedersen í leiknum á Hlíðarenda á laugardagskvöldið.
Fjórir KR-ingar í kringum Patrick Pedersen í leiknum á Hlíðarenda á laugardagskvöldið. Vísir/Daníel Þór

Atli Viðar Björnsson, einn af sérfræðingum Stöðvar 2 Sports í Pepsi Max deild karla í sumar, var ekki ánægður með staðsetningarnar á Patrick Pedersen á vellinum í 1-0 tapi Vals á móti KR.

Valsmenn náðu aðeins einu skoti á markið allan leikinn og fimm af tíu skotum liðsins voru fyrir utan vítateig. Það vantaði mun meiri bit í sóknarleikinn.

Atla Viðari fannst Patrick Pedersen spila alltaf aftarlega á vellinum og að Valsliðið saknaði þessa mikla markaskorara í sjálfum vítateignum.

Atli Viðar var með Kjartani Atla Kjartanssyni í Pepsi Max tilþrifunum á Stöð 2 Sport þar sem þeir fóru yfir hápunkta úr fyrstu fjórum leikjum Pepsi Max deildar karla í fótbolta.

Í umræðunni um leik Vals og KR var farið yfir sóknarleik Valsliðsins.

„Ég er ekki hrifinn af því hvað hann kemur rosalega djúpt. Ég veit að hann er rosalega mikilvægur í uppspilinu þeirra en við sjáum svo oft svona móment. Hann býr til fyrirgjafarstöðu en svo þegar fyrirgjöfin kemur þá er hann hvergi sjáanlegur. Mér finnst hann koma of djúpt,“ sagði Atli Viðar Björnsson.

„Patrick er náttúrulega frábær í fótbolta,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson og sýndi myndbrot með því þegar hann gerir mjög vel í uppspilinu en er svo ekki kominn inn í teiginn þegar fyrirgjöfin kemur.

„Ég er sammála því að Patrick er frábær í fótbolta og hann vildi eflaust alltaf vera inn í teig og gera ekkert meira. Þetta er bara að gerast svo rosalega oft að hann leggur upp á fyrirgjafamanninn og svo fer hann bara að horfa,“ sagði Atli Viðar.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun þeirra um Patrick Pedersen og sóknarleik Valsliðsins.

Klippa: Patrick Pedersen í leik Vals og KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×