Handbolti

Ágúst og félagar samþykktu launalækkun

Sindri Sverrisson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson gerði samning til tveggja ára við KIF Kolding en hann kemur til félagsins frá Sävehof í Svíþjóð í sumar.
Ágúst Elí Björgvinsson gerði samning til tveggja ára við KIF Kolding en hann kemur til félagsins frá Sävehof í Svíþjóð í sumar. mynd/hsí

Það virðist vera að rofa aðeins til hjá hinu sigursæla danska handknattleiksfélagi KIF Kolding sem glímir við mikla fjárhagserfiðleika.

Ný stjórn félagsins hefur nú náð samkomulagi við leikmenn, þar á meðal markvörðinn Ágúst Elí Björgvinsson sem er nýr leikmaður liðsins, um lækkun launa. Fyrri stjórn hafði ekki erindi sem erfiði þegar hún reyndi að fá leikmenn til að taka á sig 40% launalækkun en ekki er ljóst hve mikið laun þeirra lækka.

„Við höfum átt í mjög góðum viðræðum við leikmannahópinn, og við erum samtaka í því með leikmönnum að inna fleiri leiðir til sparnaðar,“ sagði Gunnar Fogt, nýr stjórnarformaður. Fram hefur komið að KIF Kolding þurfi að að safna jafnvirði 100-120 milljóna íslenskra króna til að tryggja framtíð sína.

Jens Svane Peschardt, fulltrúi leikmanna, segir í yfirlýsingu að þeir séu ánægðir. „Sem leikmaður er ég virkilega ánægður með að sjá hvað við erum samheldinn hópur sem náð hefur saman við stjórnina. Ég hlakka líka til að taka þátt í að tryggja að við búum til sjálfbæra framtíð fyrir KIF Kolding, og ég hlakka gríðarlega til þess að við förum að sjá handbolta spilaðan á fullu í Sydbank Arena í Kolding,“ sagði Peschardt.

Arnar Freyr Theodórsson, umboðsmaður Ágústs, sagði við Vísi í síðustu viku ljóst að hann væri með plön í huga ef að Kolding næði ekki að rétta úr kútnum.

„Það er vinnan mín, að vera með plan ef þetta klikkar. En hann er með gildan samning þar til félagið verður lýst gjaldþrota eða einhver úr stjórn lýsir yfir vilja að leysa hann undan samningi. Við erum í biðstöðu en ég er með plön ef þetta dettur upp fyrir og er búinn að vinna í nokkrum málum sem verða vonandi enn til staðar þegar, eða ef, þetta losnar,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir

Mál Ágústar Elís í biðstöðu

Mál Ágústar Elís Björgvinssonar eru í biðstöðu vegna fjárhagsvandræða KIF Kolding, danska félagsins sem hann var búinn að semja við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×