Stjórn hjúkrunarráðs Landspítalans lýsir yfir áhyggjum af yfirvofandi verkfalli hjúkrunarfræðinga í ályktun sem það hefur sent samninganefnd ríkisins og tveimur ráðuneytum. Varar það við því að þjónusta eigi eftir að skerðast verulega ef til verkfalls kemur.
Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga á að hefjast mánudaginn 22. júní næstkomandi klukkan 08:00 náist samningur ekki fyrir þann tíma. Hjúkrunarráð hvetur stjórnvöld í ályktuninni til að ganga frá samningum áður en til verkfallsins kemur.
„Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir í 15 mánuði og hafa þrátt fyrir það staðið vaktina í heimsfaraldri og gert það með mikilli sæmd. Langvarandi samningsleysi og yfirvofandi verkfall hefur alvarleg áhrif á þjónustu sem er á viðkvæmum stað að jafna sig eftir faraldur,“ segir í ályktuninni sem var send samninganefnd ríkisins, fjármálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu.
Bent er á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafi tileinkað árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum og hvetji þjóðir heimsins til að fjárfesta betur í hjúkrun því sýnt hefur verið fram á að slík fjárfesting skili sér margfalt til baka.