Innlent

Vilja hækka grunnat­vinnu­­leysis­bætur og lengja tekju­tengda tíma­bilið

Sylvía Hall skrifar
ASÍ hefur í nokkurn tíma lagt áherslu á að lögin um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð í heild sinni.
ASÍ hefur í nokkurn tíma lagt áherslu á að lögin um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð í heild sinni. Vísir/Vilhelm

Alþýðusamband Íslands lagði í síðustu viku fram umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Sambandið hefur í nokkurn tíma lagt áherslu á að lögin um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð í heild sinni og jafnframt lagt ríka áherslu á að atvinnuleysisbætur verði þegar í stað hækkaðar og tekjutengda tímabilið lengt.

Það frumvarp sem nú er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis tekur á hvorugum þessara þátta að sögn sambandsins. Í umsögninni er því lögð fram tillaga um hækkun bæði grunnbóta og tekjutengdra bóta, um 9,9 prósent, þannig að grunnatvinnuleyisbætur verði nálægt því sem lágmarks tekjutengingin er í dag.

„Grundvallaratriðin eru þessi að við erum að leggja til að grunnatvinnuleysisbæturnar verði mjög nálægt því sem lágmarkstekjutryggingin er í dag. Við erum að leggja til að tekjutengingin, þar veðri hámarkið hækkað, þeir sem eru á lægstu laununum að þeir njóti tekjutengingar að fullu og síðan að tekjutengda tímabilið verði lengt úr þremur mánuðum í sex,“ segir Halldór Grönvöld, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.

Hann segir að varði stóran hóp fólks.

„Það eru 15 þúsund manns sem reiða sig á þessa framfærslu og við óttumst að sá hópur eigi mögulega eftir að stækka á næstu vikum og mánuðum og það er ljóst að ef það verður ekkert gert í þessu erum við að kalla yfir þennan hóp stöðu varðandi framfærslu sem gerir þeim með öllu ófært að standa undir skuldbindingum sínum og njóta einhverja lágmarks lífskjara,“ segir Halldór.

Á árunum 2009 og 2010 voru atvinnuleysisbætur í kringum 95% af lágmarks tekjutengingunni eins og lagt er til að þær verði nú.

„En það hefur gefið eftir á síðustu árum þannig að atvinnuleysisbæturnar eru núna eins og ég segi miðað við lágmarkstekjur nærri því að vera í sögulegu lágmarki.“

Hafið þið von til að stjórnvöld líti jákvætt á þessar tillögur?

„Við bara gefum okkur það,“ segir Halldór Grönvöld, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×