Íslenski boltinn

Blikar á varðbergi vegna veirunnar en starfsemin óskert | Einn þjálfari í sóttkví

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margmenni kemur saman í Fífunni á hverjum einasta degi.
Margmenni kemur saman í Fífunni á hverjum einasta degi. Vísir/Vilhelm

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, þeirrar fjölmennustu á landinu, segir að félagið sé á varðbergi vegna kórónuveirunnar. Einn þjálfari í yngri flokkum Breiðabliks er í sóttkví en ekki hefur komið upp smit hjá iðkendum.

Um 1500-1600 iðka fótbolta hjá Breiðabliki og Fífan er afar fjölfarin.

„Við erum varkárir. Félagið hefur frestað viðburðum; golfsýningu, herrakvöldi og svo er árshátíð í apríl sem getur vel verið að verði frestað. Allt hefur þetta áhrif á tekjurnar inn í félagið,“ sagði Eysteinn í samtali við Vísi.

„Við fylgjum öllum fyrirmælum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og störfum náið með Kópavogsbæ. Við fundum reglulega og tökum stöðuna dag frá degi.“

Fyrr í vikunni greindu Blikar foreldrum iðkenda frá því að þjálfari yngri flokka væri kominn í sóttkví.

„Einn þjálfari er í sóttkví og foreldrum var tilkynnt um það á mánudaginn,“ sagði Eysteinn.

Eysteinn Pétur Lárusson er framkvæmdastjóri Breiðabliks.mynd/breiðablik

Hann segir að Blikar hafi gripið til ráðstafana til að minnka líkurnar á smiti.

„Eitt af því sem við erum að undirbúa er að starfsfólk geti unnið heima. Við erum með sprittstanda við alla innganga og það er oftar þrifið; spritta handrið, hurðahúna og fleira á þeim rýmum sem eru fjölförnust,“ sagði Eysteinn.

Blikar hafa hingað til ekki fellt niður æfingar eða skert starfsemi sína.

„Við höldum okkar striki þangað til annað er ákveðið,“ sagði Eysteinn.

En hefur iðkendum á æfingum fækkað hjá Breiðabliki eftir kórónuveiran fór að breiðast út?

„Ég er ekki alveg með puttann á þeim púlsi en í fljótu bragði get ég ekki séð það,“ sagði Eysteinn.

En eru Blikar með viðbragðsáætlun ef smit kemur upp?

„Þá leitum við til Kópavogsbæjar og almannavarna og fylgjum þeim í einu og öllu. Við erum alveg viðbúnir því að þurfa að grípa til skertrar starfsemi. En við förum ekki þá leið nema það verði tilmælin og það komi upp tilvik,“ sagði Eysteinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×