Innlent

Út­lit fyrir austan strekking á landinu en hvass­viðri sunnan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Líkur eru á éljum allvíða, en ekki er búist við miklu úrkomumagni á hverjum stað.
Líkur eru á éljum allvíða, en ekki er búist við miklu úrkomumagni á hverjum stað. Vísir/Hanna Andrésdóttir

Útlit er fyrir austan strekking á landinu í dag þar sem vindhraðinn verður tíu til fimmtán metrum á sekúndu. Með suðurströndinni er þó spáð hvassviðri með fimmtán til tuttugu metrum á sekúndu.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að vindur á norðaustanverðu landinu verði hægur, þar sem austanáttin nær sér engan veginn á strik.

„Líkur eru á éljum allvíða, en ekki er búist við miklu úrkomumagni á hverjum stað. Líklegt er að Vesturland sleppi við úrkomu. Áfram er frekar kalt á landinu, jafnvel tveggja stafa frosttölur í innsveitum fyrir norðan.

Á morgun bætir heldur í austanáttina og ofankomuna, áfram verður þó Vesturland úrkomulaust að mestu. Hitinn mjakast uppávið og fer yfir frostmark syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Austan 13-20 m/s og snjókoma með köflum, en 18-23 og slydda með suðurströndinni. Úrkomulaust að mestu á Vesturlandi. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag: Norðaustan 13-20. Úrkomulítið sunnan heiða, en snjókoma annars staðar og talsverð ofankoma norðaustantil á landinu. Hiti um og undir frostmarki.

Á fimmtudag: Norðaustanátt og dálítil él norðan- og austanlands, en annars bjartviðri. Suðlægari síðdegis á suðvestanverðu landinu og líkur á snjókomu þar. Frost 1 til 8 stig.

Á föstudag: Austlæg átt og snjókoma víða um land, hiti breytist lítið.

Á laugardag: Norðanátt með snjókomu eða éljum, en léttir til á Suður- og Vesturlandi. Herðir á frosti.

Á sunnudag: Austan- og norðaustanátt og bjartviðri, en dálítil él austanlands. Talsvert frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×