OPEC, Samtök olíuútflutningsríkja auk annarra samstarfsríkja með Rússland í fararbroddi, hafa komist að samkomulagi um að draga verulega úr olíuframleiðslu til að reyna að stemma stigu við lækkun olíuverðs. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið að undanförnu vegna kórónuveirufaraldursins og verðstríðs Rússa og Sádi Araba.
Samkomulagið er sögulegt en með því er leitast við að ná olíuverði upp að nýju. Framleiðsla gæti dregist saman um allt að 20% með samkomulaginu að því er fréttastofa Reuters greinir frá. Eftirspurn eftir olíu hefur hríðfallið vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verð til víðs vegar um heim vegna kórónuverufaraldursins sem hefur leitt til mikillar lækkunar olíuverðs.
OPEC-ríkin auk samstarfsríkja komust að samkomulagi um að framleiðsla verði dregin saman um sem nemur 9,7 milljónum tunna á dag í maí og í júní, eftir fjögurra daga viðræður í gegnum fjarfundi og í framhaldi af miklum þrýstingi frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Olíuframleiðendur í Bandaríkjunum eru sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum faraldursins vegna þess hve kostnaðarsöm framleiðslan er þar í landi.
Gert er ráð fyrir að dregið verið úr aðgerðunum í skrefum eftir lok júnímánaðar en framleiðslan verði þó ekki komin aftur í samt horf fyrr en í apríl 2022. Samdrátturinn sem samkomulagið gerir ráð fyrir er sá mesti í sögunni eða fjórum sinnum meiri en árið 2008.