Innlent

Sparkaði í bíla í mið­borginni en átti að vera í sótt­kví

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
Lögreglustöðin við Hverfisgötu. Vísir/vilhelm

Annasamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, að því er fram kemur í tilkynningu.

Karlmaður í annarlegu ástandi var handtekinn við að sparka í bíla í miðbæ Reykjavíkur. Þegar á lögreglustöð var komið kom í ljós að maðurinn átti að vera í sóttkví og því var hann kærður fyrir brot á sóttvarnalögum og vistaður í fangageymslu.

Þá var karlmaður á fertugsaldri handtekinn við innbrot í fyrirtæki í Garðabæ í nótt en hann reyndi í fyrstu að fela sig og hlaupa á brott þegar lögreglu bar að garði.

Annar karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í nótt í umdæmi lögreglu í Hafnarfirði, grunaður um heimilisofbeldi. Hann var vistaður í fangageymslu.

Einnig segir frá því að upp úr klukkan 21 í gærkvöldi hafi verið tilkynnt um umferðarslys í hverfi 109 í Reykjavík. Missti ökumaður strætisvagns þar stjórn á vagninum, ók utan í ljósastaur, yfir umferðareyju og hafnaði að lokum á tré. Var strætisvagninni mikið skemmdur og óökuhæfur. Einn farþegi slasaðist í andliti og er málið er í rannsókn, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×