KA hefur staðfest komu Rutar Jónsdóttur og Ólafs Gústafssonar til félagsins. Í morgun greindi Vísir frá því að þau væru á leið norður. Rut og Ólafur skrifuðu bæði undir tveggja ára samning við KA/Þór og KA.
Næsta tímabil verður fyrsta tímabil Rutar á Íslandi síðan hún lék með HK 2007-08. Hún lék tólf ár í Danmörku, með Team Tvis Holstebro, Randers, FCM Håndbold og Esbjerg. Hún varð danskur meistari með Esbjerg, EHF-meistari með Team Tvis Holstebro og bikarmeistari með Randers.
Rut, sem er 29 ára, hefur verið í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu í meira en áratug og hefur leikið með því á þremur stórmótum.
Ólafur, sem er 31 árs, hefur leikið með FH og Stjörnunni hér á landi, Aalborg og KIF Kolding í Danmörku og Flensburg í Þýskalandi. Með síðastnefnda liðinu vann hann Meistaradeild Evrópu.
Ólafur hefur leikið með íslenska landsliðinu á tveimur stórmótum (HM 2013 og 2019).